Aðalmeðferði í dómsmáli Atlantic Green Chemicals (AGC) gegn Reykjaneshöfn, Thorsil og Reykjanesbæ, hófst í Héraðsdómi Reykjaness á fimmtudaginn. AGC hefur hug á að reisa lífalkóhól- og glýkólverksmiðju á sömu lóð og Thorsil undibýr nú byggingu kísilmálmverksmiðju.

Fyrirtækið AGC höfðaði samskonar mál á vormánuðum í fyrra og í október sama ár komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að kröfur AGC væru vanreifaðar og vísaði málinu frá dómi. AGC kærði frávísunarúrskurðinn til Hæstaréttar, sem í desember í fyrra staðfesti niðurstöðu héraðsdóms. Nú hafa forsvarsmenn AGC höfðað nýtt mál þar sem þess er krafist fyrirtækið fái að byggja verksmiðju á lóðinni við Berghólabraut 4 í Helguvík.

Nýta orku frá United Silicon

Í lok árs 2014 undirrituðu fulltrúar Reykjaneshafnar og Thorsil samning um lóðina, sem er 160 þúsund fermetrar. Ástæða þess að AGC leggur svona mikla áherslu á að fá lóðina er að fyrirtækið hyggst nýta afgangsvarmaorku frá kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík til sinnar framleiðslu. Vegna innflutnings á hráefnum og útflutnings afurða þá skiptir nálægð við Helguvíkurhöfn fyrirtækið einnig miklu máli.

„Okkar krafa er fyrst og fremst sú að það sé viðurkennt að AGC fái lóðina Berghólabraut 4," segir Jón Jónsson, lögmaður AGC, í samtali við Viðskiptablaðið. „Þetta var lóð sem Reykjaneshöfn lýsti sig tilbúna til að úthluta til AGC árið 2011."

Spurður hvort forsvarsmenn AGC séu með samning vegna lóðarinnar svarar Jón:  „Fulltrúar AGC áttu nokkra fundir með Reykjaneshöfn og Reykjanesbæ. Þegar verksmiðjan fór í umhverfismat lýstu þeir því yfir að þeir þyrftu að hafa eitthvað fast í höndunum varðandi lóð í Helguvík. Þá fengu þeir yfirlýsingu frá Reykjaneshöfn um að hafnaryfirvöld væru tilbúin að úthluta AGC þessari lóð. Það var gert í tölvupósti og deilan snýst meðal annars um lögmæti þess að veita loforð með þeim hætti. Hvort sá háttur sé nógu formfastur."

Að sögn Jóns hefur ekki tekist að ná neinu samkomulagi um aðra lóð fyrir AGC í Helguvík og segir hann að þess vegna sé málið að fara fyrir dóm. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Reykjaneshöfn eigi til lóð, sem er bæði nær verksmiðju United Silicon og höfninni, en sú lóð sem deilan snýst um.

Eiga til aðrar lóðir

Halldór Karl Hermannsson var ráðinn hafnarstjóri Reykjaneshafnar í júní árið 2015. „Miðað við mína þekkingu á málinu veit ég ekki til þess að viðkomandi hafi neina kröfu á hendur Reykjaneshöfn," segir Halldór Karl. Hann segir að frá því hann hóf störf hafi AGC ekki haft samband og óskað eftir annarri lóð í Helguvík. "Ég hef hvorki heyrt frá eða séð þessa aðila síðan ég byrjaði að vinna hérna. Það liggur alveg fyrir að það eru til aðrar lóðir á Helguvíkursvæðinu undir atvinnustarfsemi ."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .