Í undirbúningi er þingsályktunartillaga um að kanna kosti þess að skipuð verði stjórn yfir Landspítalanum, að sögn Nichole Leigh Mosty, formanns velferðarnefndar.

„Mér líst vel á þessa tillögu og ég tel hana til bóta fyrir rekstur spítalans,“ segir Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra í Fréttablaðinu í dag. „Öll alvöru fyrirtæki eru með stjórn og ég teldi það æskilegt að svo stórt fyrirtæki eins og Landspítalinn er væri líka með stjórn.“

Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar telur mikilvægt að setja stjórn yfir sjúkrahúsið. „Ég tel þetta ósköp rökrétt framhald. Þarna fara rúmlega fimmtíu milljarðar á hverju ári,“ segir Haraldur. „Það skiptir máli að fjármunum sem þessum sé vel varið og það er eilífðarverkefni stjórnvalda. Einnig tel ég stjórn góðan kost til að efla faglegan styrk sjúkrahússins.“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir hins vegar stjórnendur spítalans hæfa til að stýra spítalanum, þó hann segir að það gæti verið til hagsbóta að hafa stjórn.„Venjulega er hlutverk stjórna að koma að stefnumótun og hafa eftirlit með rekstri og faglegum þáttum starfsemi, en ekki stýra rekstri“ segir Páll.