Magnús Harðarson forstöðumaður íslensku kauphallarinnar, Nasdaq Iceland, segir að beinn eignarhlutur einstaklinga í markaðsvirði kauphallarinnar sé nú einungis 4% hér á landi. Hins vegar var eignarhluturinn á bilinu 11 til 17% á árunum 2002 til 2007, það er árunum fyrir hrun.

Magnús segir mikilvægt að almenningur taki þátt í hlutabréfamarkaðnum að því er Morgunblaðið greinir frá og vill hann að horft sé til erlendrar fyrirmyndar í þeim efnum. „Við höfum verið að líta til sænskrar leiðar sem var farin þarlendis til að auka þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði,“ segir Magnús.

Um er að ræða skattalegan hvata til hluabréfakaupa, sem almenningur hefur verið duglegur að nýta þar í Svíþjóð. Hafa 1,8 milljónir Svía fjárfest fyrir 450 milljarða sænskra króna frá árinu 2012 á hlutabréfamarkaði þar í landi.