Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði (SFV) hafa sent frá yfirlýsingu þar sem þau kalla eftir að stjórnvöld hækki hámarksfjölda gesta veitingahúsa upp í 50 manns í hverju rými, veittar verði sérstakar undanþágur á 2 metra reglunni og opnunartíma lengdur til 23:00.

Í sóttvarnarreglum stjórnvalda er kveðið um að hámarksfjöldi einstaklinga í hverju rými séu 20. Í tilkynningu SVF segir að veitingahús setji eftir þegar hámarskfjöldi viðskiptavina hafa verið aukinn í öðrum greinum, líkt og líkamsrækt, sundi og leikhúsum án þess að haldbær rök hafi verið gefin hvers vegna sambærilegar breytingar hafi ekki náð til veitingahúsa.

Þá óska samtökin eftir að opnunartími verði færður til 23:00, í stað 22:00 því „hver klukkustund skipti miklu máli“. Að auki kalla þau eftir skýrari reglum um hve langan tíma veitingahús hafa til að tæma staði eftir lokun. Þar er meðal annars bent á aukna hættu á hópmyndun sé öllum gert að yfirgefa á sama tíma.

Samtökin vilja einnig að látið verði af stöðugum lögregluaðgerðum „með tilheyrandi fréttaflutningi sem grafi undan greininni í heild sinni“. Veitingastaðir hafi lagt sig fram um að starfa eftir settum reglum og til merki um það hafi ekki verið rakin smit til veitingastaða. Í tilkynningunni segir að umræðan um veitingastaði, eftirlit og aðgerðir sem þeim tengjast sé „hróplega úr taki við nauðsyn og raunverulega stöðu“.

Að lokum taka SVF heilshugar undir sjónarmið rekstraraðila kráa og bara sem hafa þurft að upplifa „óútskýranlegt ósamræmi og rökleysu“ hvað varðar sóttvarnarreglur sem þeim sé gert að hlíta.