Rafiðnaðarsamband Íslands vilja að stjórn Haga hætti við 10% launahækkun til stjórnarmanna fyrirtækisins og hafa þau lagt fram tillögu þess efnis til fyrirtækisins. Vilja samtökin að tillögunni verði fylgt eftir af fulltrúum á hluthafafundinum og beina þau þeim orðum sérstaklega til fulltrúa lífeyrissjóðanna.

Samkvæmt tillögu stjórnarinnar munu til dæmis laun formanns stjórnarinnar hækka úr 600 þúsund í 660 þúsund krónur á mánuði ef tillaga stjórnarinnar verður samþykkt. „Réttast væri að sjálfsögðu að launin yrðu lækkuð hressilega en látum á það reyna hvort þessi tillaga verði ekki bara samþykkt á fundinum,“ segir í tilkynningu Rafniðnaðarsambandsins.

„Það er augljóst að þessi stjórnarlaun eru komin svo langt úr hófi að ekki verður séð að ástæða sé til þess að hækka þau svo ríflega og er það tillaga frá Rafiðnaðarsambandi Íslands að launin haldist óbreytt og verði ekki hækkuð í bráð.“