Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem meðal annars hefur það að markmiði að tryggja alþjóðlegan fjármálastöðugleika, hvatti í gær þýsk stjórnvöld til að hækka eftirlaunaaldur í landinu. Sjóðurinn lagði þó ekki til hve mikið hann teldi að aldurinn skyldi hækka. Þetta kemur fram á vef CNN.

Undanfarin ár hafa margar þjóðir stigið það skref að hækka eftirlaunaaldur en Þjóðverjar fóru hinsvegar aðra leið árið 2014 þegar Angela Merkel kanslari sá m.a. til þess að aldurinn var lækkaður niður í 63 ár. Ákvörðunin var vinsæl meðal landsmanna en mætti hinsvegar háværri gagnrýni frá ýmsum hagfræðingum. Ráð sérfræðinga í Þýskalandi áætlaði á sínum tíma að ákvörðunin myndi kosta Þýskaland 10 milljarða evra á ári.

Sérfræðingur á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagði að endurbætur á eftirlaunakerfi landsins myndi hvetja fólk til að vinna lengur sem í kjölfarið myndi draga úr þörf fólk til að spara fyrir eftirlaunaárunum. Það myndi síðan auka neyslu fólks sem í kjölfarið myndi hafa jákvæð áhrif á efnahag landsins.

Ekki er gert ráð fyrir því að tilmæli sjóðsins komi til með að hafa mikil áhrif á þýsk stjórnvöld enda styttist óðum í kosningar í landinu.