Fjártæknifyrirtækið YAY hefur gefið út smáforrit sem einfaldar alla umsýslu á gjafabréfum og býður nú inneign fyrir útrunnin og ógild gjafabréf. Flestir þekkja vandamálið sem fylgir því að eiga gjafabréf sem gleymist niðri í skúffu og þegar það finnst er það útrunnið og ónothæft.

Yay hefur þróað lausn við þessu og býður upp á kaup og sölu á gjafabréfum á ýmsan hátt í gegnum einfalt smáforrit í símanum. Eftir að smáforritið kom á markað eru yfir 76 fyrirtæki komin í samstarf og notendum fjölgar jafnt og þétt.

Forritið gerir það að verkum að þú ert alltaf með gjafabréfið þitt á þér og endursölumarkaðurinn býður upp á auðvelda leið til að selja gjafabréf sem henta illa og kaupa önnur í staðinn.

„Til að kynna þessi þægindi fyrir fólki höfum við tekið þá ákvörðun að kaupa gömul og útrunnin gjafabréf af notendum okkar á 1.500 krónur, sem gildir þá sem inneign í appinu og nýtist til að kaupa vöru, afþreyingu eða þjónustu af samstarfsaðilum okkar,“ segir Ari Steinarsson, framkvæmdastjóri YAY.

„Með þessu erum við að sýna fram á hversu oft þessi gamla og úrelta tegund gjafabréfa, eins og við þekkjum í dag, glatast og umtalsverð verðmæti með. Þá á ég við gjafabréfin sem eru í pappírs- eða plastformi sem við stingum upp í skáp. Ég tel að við eigum eftir að gjörbylta því hvernig fólk gefur, þiggur, kaupir, selur og skiptir gjöfum,“ bætir Ari við.

Ferlið hjá YAY er alveg rafrænt og kemur því í veg fyrir alla sameiginlega snertifleti í dreifingu og notkun. Auk þess eru umhverfisvæn sjónarmið í forgrunni þar sem engin þörf er á framleiðslu plastkorta né útprentun.

Smáforritið Yay
Smáforritið Yay
© Aðsend mynd (AÐSEND)

170 þúsund sótt ferðagjöf ríkisins

YAY er fjártæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í útgáfu og dreifingu á rafrænum gjafabréfum. Auk þess sem smáforritið býður upp á kaup á gjafabréfum er hægt að nýta endursölumarkað forritsins og selja, kaupa eða skipta gjafabréfi.

Ríkið valdi YAY til að dreifa Ferðagjöf ríkisstjórnarinnar og er hún keyrð á YAY lausninni. Nú hafa um 170.000 manns sótt Ferðagjöfina og um 130.000 innlausnir átt sér stað hjá yfir 800 fyrirtækjum um land allt.