Tiltölulega auðvelt er að benda á orsakirnar fyrir lækkun olíuverðs árið 2008 en staðan í dag er flóknari, því þó efnahagsástandið í heiminum sé í lægð er það ekki eins slæmt og á haustmánuðum 2008.

Guðjón Ármann Guðjónsson, forstöðumaður sjóðstýringar hlutabréfa hjá Stefni, fylgist í sínu starfi vel með erlendum mörkuðum. Í gegnum tíðina hafa sjóðir Stefnis meðal annars fjárfest í fyrirtækjum í olíuiðnaði. Hann segir að þegar á árinu 2013 hafi Stefnir byrjað að selja bréfin sem tengdust þessum iðnaði og í byrjun árs 2014 hafi Stefnir verið búinn að losa um nánast allar stöður í fyrirtækjum sem þjónusta olíuiðnaðinn.

„Bandaríkjamenn voru þá búnir að auka sína framleiðslu gríðarlega og við sáum einnig að það var farið að hægja mikið á hjá fyrirtækjum sem þjónusta iðnaðinn," segir Guðjón Ármann. „Þetta voru fyrstu merkin um stress á olíumarkaði og að olíuverð kynni að fara að lækka, sem það síðan gerði."

Svipað og árið 1985

„Um mitt árið 2014 byrjuðu kvisast út fréttir frá OPEC um að verið sé að framleiða of mikið af olíu og þar af leiðandi sé framboðið of mikið. Olíuverð lækkaði skart eftir þetta. Í lok nóvember 2014 varð ákveðinn vendipunktur. Þá var fundur hjá OPEC þar sem tekin var  ákvörðun um að viðhalda framleiðslunni og jafnvel auka við hana. Þennan sama dag lækkaði olíuverð um 14% og sú þróun hefur haldið áfram. Þó þeir hafi auðvitað ekki sagt það þá er almennt talið að þessi ákvörðun hafi verið tekin til þess að jaðarframleiðendurnir, eins og til dæmis bandarísk fyrirtæki sem framleiða olíu með bergbroti (e. fracking eða shale), myndu tapa á sínum rekstri því sú vinnsla er mikið dýrari en olíuvinnsla OPEC-ríkjanna.

Þetta vakti okkur til umhugsunar því það er sannanlega ekki í takt við hagsmuni Sádí-Arabíu og OPEC að olíuverð lækki. Þá fórum við að skoða söguna og stöldruðum við tímabilið 1985 til 1986. Þá kom olía frá Norðursjó inn á markaðinn og markaðshlutdeild Sádí-Arabíu minnkaði eins og hún hefur gert undanfarin ár. Þá bættu þeir í framleiðsluna. Dældu olíu á markaðinn og verðið hrundi. Núna viðhalda þeir framleiðslunni með sama árangri. Ég held að flestir séu sammála um að þeir ætli sér að knésetja bergbrots-framleiðendur. Þetta hefur samt gerst hægar en þeir voru að vona. Þetta hefur líka haft miklar og neikvæðar afleiðingar fyrir önnur olíuríki, eins og til dæmis Rússland, Brasilía, Nígeríu, Venesúela og þannig mætti áfram telja.

Vaxtarbroddurinn í heims hagvexti hefur verið á nýmörkuðum. Sá markaður er orðinn það stór hluti af hagvexti heimsins að lágt olíuverð er kannski ekki jafn gott fyrir umheiminn og menn myndu halda í fyrstu. Lágt olíuverð hefur líka haft mikil áhrif á hrávörumarkað. Þar eru mörg fyrirtæki að ströggla. Fyrir hinn vestræna neytenda er þetta samt gott. Þetta hefur líka haft jákvæð áhrif á fyrirtæki tengd bílaiðnaði, flugvélaiðnaði og efnaframleiðendur sem nota olíu og sjávarútveginn á Íslandi. Við sjáum hvaða áhrif þetta hefur haft á rekstur Icelandair sem líkt og mörg erlend flugfélög hafa verið að birta gríðarlega sterk uppgjör.

Í heildina hefur þetta samt haft frekar neikvæð áhrif á hagvöxt í heiminum. Áður en olíuverð  byrjaði að lækka var hagvöxtur almennt frekar lágur en nú standa mörg ríki frammi fyrir einhverjum mestu verðhjöðnunarkröftum sem við höfum séð, sem er alls ekki gott til langs tíma litið."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .