Þingmaður Miðflokksins, Birgir Þórarinsson, lagði fram breytingartillögu við frumvarp ríkisstjórnarinnar um lækkun sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki eða bankaskattsins svokallaða. Frumvarpið gerir ráð fyrir að bankaskatturinn taki að lækka í fjórum þrepum árið 2021, en Birgir vill seinka lækkun skattsins þannig að einungis fyrsta skrefið verði tekið og ekki verði gefin vilyrði fyrir frekari lækkun.

Í greinargerð með tillögunni segir að ekki sé víst að lækkun skattsins muni skila sér til neytenda í formi lægri kostnaðar, eins og frumvarp ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir.

„Flutningsmaður þessarar breytingartillögu leggur til að í fyrstu verði aðeins stigið fyrsta skrefið í stað þess að gefa þegar vilyrði um árlega lækkun næstu fjögur árin. Næstu skref verði stigin að fenginni reynslu af fyrsta þrepi lækkunarinnar þegar sannreynt hefur verið að viðskiptavinir fjármálafyrirtækja njóti góðs af henni í formi lægri þjónustugjalda og bættra vaxtakjara,“ segir í greinargerð með breytingatillögunni.