Skógræktin gerði nýlega samning við límtrésverksmiðjuna Límtré Vírnet um að hefja tilraunir á límtrjágerð úr íslenskum trjám, en hingað til hafa tré til slíks verið flutt inn. Enn liggur ekki fyrir hvort íslenskt timbur sé yfirhöfuð nothæft í límtré, en Björn Bjarndal Jónsson, verkefnisstjóri hjá Skógræktinni, segist telja að svo sé. „Við höldum það nú, en við ætlum samt að geyma allar yfirlýsingar þar til búið er að fara í gegnum þetta ferli. Íslenskt timbur hagar sér hugsanlega svolítið öðruvísi, til dæmis í þurrkun, en timbur sem vex í öðrum löndum,“ segir hann.

Límtré er timbur eða borð sem límt er saman og notað sem burðarvirki í hús, sem dæmi. Timbrið er sagað, límt saman, og úr því gerðir svokallaðir límtrésbitar.

Skoða alla möguleika
Björn segir verkefnið snúast um að kanna gæði íslenska timbursins. „Nýsköpunarmiðstöð kemur til með að kanna styrkinn, það er gert í sérstökum brotvélum, timbrið er sett í vélarnar og brotþolið er kannað. Við getum svo borið það saman við innflutt timbur, hvort íslenska timbrið sé jafn gott.“

Fjórar algengustu trjátegundir í nytjaskógum á Íslandi verða skoðaðar. „Við tökum helstu tegundir sem við erum að rækta: greni, furu, alaska-ösp og lerki, og könnum hversu auðvelt er að þurrka hverja tegund fyrir sig,“ en þurrka þarf timbrið í þar til gerðum klefum áður en það fer í límingu. „Þannig að það eru svona ýmsir þættir í þessu sem við erum að skoða.“

Auk þess að skoða grunnþættina, eins og þurrkun og límingu til límtrjágerðar, verður timbrið rannsakað í víðara samhengi. „Við erum að skoða gæði íslenska timbursins til fjöldaframleiðslu á límtré eða þess vegna einhverri annarri framleiðslu sem nýst gæti til mannvirkjagerðar,“ segir Björn. „Ég held að verkefnið geri okkur það til dæmis kleift að skoða hvort það sé möguleiki á að fara í krosslímingu á íslensku timbri. Við ætlum aðeins að þreifa á hvernig við sögum það og þurrkum.“

Björn vonast til að niðurstaða fáist um mitt ár. „Þá getum við farið að skoða næsta stig sem verður vonandi framleiðsla á einhverju úr þessu timbri, hvað sem það verður.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .