Hlemmur mathöll ehf. fer fram á það við borgaryfirvöld að fá að stækka húsnæðið um 200 fermetra í austurátt að því er Þór Sigfússon eigandi fyrirtækisins segir í Morgunblaðinu .

„Við sendum þetta inn í því ljósi að við vitum að borgin er að hugsa sér breytingar á svæðinu,“ segir Þór sem segir málið þó á byrjunarstigi og enn sé beðið svara frá borginni. „Við höfum áhuga á að stækka Hlemm með það fyrir augum að geta haft rými bæði fyrir gesti og líka hugsanlega sem bændamarkað í borginni.“

Eins og fram hefur komið í fréttum var heildarkostnaður við Mathöllina við Hlemm um þrefalt meiri en fyrst var gert ráð fyrir , eða 308 milljónir króna en kostnaðaráætlun hafði gert ráð fyrir 107 milljónum króna.

Var það alls ekki einsdæmi í framkvæmdum borgarinnar en eins og frægt var orðið fóru framkvæmdur við Braggann í Nauthólfsvík einnig langt fram úr áætlunum.