Skoski þjóðarflokkurinn mun að líkindum fara fram á að taka við sem formlegur stjórnarandstöðuflokkur á breska þinginu í dag og taka því við stöðu breska Verkalýðsflokksins, sem gegnir hlutverkinu í dag. Þetta kemur fram á vef The Independent í dag.

Samkvæmt reglum í Erskine May, reglubók um þingið, er tekið skýrt fram að stjórnarandstöðuflokkur verður alltaf að vera reiðubúinn að taka við stjórn þingsins. Skoski þjóðarflokkurinn telur að Verkalýðsflokkurinn sé langt í frá tilbúinn að taka við stjórninni, enda hafa miklar ryskingar átt sér stað innan flokksins síðustu daga.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær tapaði Jeremy Corbyn, leiðtogi flokksins, vantraustskosningu. Þá hafa tveir þriðju skuggaráðherra Corbyn sagt af sér störfum og einhver ólga ríkir innan flokksins. Angela Eagle mun þá líklega bjóða sig fram í formannssætið gegn Corbyn.