Seðlabanki Íslands (SÍ) undrast að ekki verði mögulegt að hýsa nýjan Þjóðarsjóð innan veggja bankans heldur verði hann hýstur á einkamarkaði á grundvelli samnings við verðbréfa- og eignastýringarfyrirtæki. Samtök atvinnulífsins (SA) leggjast gegn því að sjóðnum verði komið á fót og Viðskiptaráð Íslands (VÍ) telur að útfærslan á sjóðnum gæti verið betri. Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögnum um frumvarp um Þjóðarsjóð.

Umræða um Þjóðarsjóð hefur átt sér stað reglulega frá 2017 en frumvarp um hann var kynnt í fyrra. Frumvarpið var lagt fram á þingi í desember á síðasta ári en náði ekki fram að ganga. Í frumvarpinu nú hefur verið tekið tillit til breytinga sem efnahags- og viðskiptanefnd lagði til en að öðru leyti stendur það óbreytt.

Meðal breytinga sem nefndin lagði til var að árétta frekar sjálfstæði sjóðsins og auka hæfniskröfur til þeirra sem veljast í stjórn sjóðsins. Enn fremur lagði nefndin til að stjórn sjóðsins myndi semja við þar til bæran aðila um að annast áhættustýringu og vörslu sjóðsins og að öðrum aðila, með sérþekkingu á erlendum fjármálamörkuðum, yrði falið að annast eignastýringu. Nefndin taldi að fjárfestingastarfsemi samræmdist ekki hlutverki og skyldum SÍ og því skynsamlegt að SÍ tæki ekki yfir daglegan rekstur sjóðsins. Slíkt væri enn varhugaverðara í ljósi verðandi sameiningar SÍ og Fjármálaeftirlitsins.

Samlegð í Svörtuloftum

„Það sem getur komist næst markmiðum og viðmiðum þess að viðhalda Þjóðarsjóði er varðveisla gjaldeyrisforða sem einnig er ætlað að mæta áföllum sem þjóðarbúið verður fyrir. Ljóst er því ef þjóðarbúið verður fyrir meiriháttar ófyrirséðu áfalli mun verða selt úr gjaldeyrisforðanum til að mæta afleiðingum þess. Þjóðarsjóðurinn og gjaldeyrisvarasjóðurinn eru því systrasjóðir,“ segir í umsögn SÍ.

„[Það kemur] nokkuð á óvart að frumvarp um Þjóðarsjóð gerir ráð fyrir að stjórn sjóðsins semji við verðbréfa- og eignastýringarfyrirtæki á einkamarkaði án milligöngu annarra um verðbréfakaup samkvæmt settri fjárfestingarstefnu. Með hliðsjón m.a. af reynslu Norðmanna telur Seðlabankinn að eðlilegt væri að stjórnin hefði að minnsta kosti heimild til þess í lögunum að semja við Seðlabankann um umsjón með sjóðnum,“ segir þar enn fremur.

Bendir bankinn á að töluverð samlegðaráhrif gætu náðst með því að fela bankanum varðveislu Þjóðarsjóðs. Í raun sé allt til staðar innan bankans til að hýsa sjóðinn. Á það er bent að umsýslukostnaður eignastýringaraðila í einföldustu eignasöfnum, sem samanstanda til að mynda af skuldabréfum með hátt lánshæfismat og mikinn seljanleika, geti verið 0,1% af markaðsvirði. Áætlaður umsýslukostnaður vegna gjaldeyrisforða bankans sé hins vegar 0,03-0,06%. Stærstur hluti þess sé fastur kostnaður þar sem virði eigna hafi ekki áhrif. Einnig myndu nást samlegðaráhrif með Lánamálum ríkissjóðs.

„Það getur falið í sér talsverða fjárhagslega áhættu fyrir ríkissjóð að láta þrjá utanaðkomandi aðila sjá um eignastýringu Þjóðarsjóðs á meðan skuldastýring ríkissjóðs er öll á öðrum stað,“ segir SÍ.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .