Maríanna H. Helgadóttir formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga segir að félagsmenn upplifi að þeir séu í nákvæmlega sömu stöðu og árið 2014 áður en félagsmenn fóru í verkfall.

Fara félagsmenn fram á að lægstu laun þeirra verði hækkuð um 32%, það er úr rúmum þrjú hundruð þúsund krónum í fjögur hundruð þúsund að því er RÚV greinir frá. Þó gæti kröfurnar orðið hærri vegna hækkana Kjararáðs. Eru röksemdir þeirra meðal annars að hækka verði laun vegna samræmingar á lífeyrisréttindum við almenna markaðinn en einnig því laun verði ekki lengur tengd lífaldri.

„Ríkið hefur lagt það til að við semjum um núll samning til ársins í raun mars 2019 og þeir segja að núna séu engir möguleikar á hækkun eða neitt slíkt,“ segir Maríanna. „Þá erum við mögulega að tala um ca 16 til 30 prósenta hækkun ef við berum okkur saman við aðra. Því það má alveg horfa til þess að forsendunefnd SA og ASÍ mun koma saman í febrúar og þar af leiðandi munu þeir skoða hvað þeir munu gera.

Kjararáð samdi um ákveðnar hækkanir sem eru töluvert háar og fleiri aðilar að koma fram. Þannig að ég get alveg trúað því að þessi 32 prósenta rammi eigi eftir að víkka og þar af leiðandi geta okkar kröfur víkkað líka.“  Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa hagfræðingar varað við því að nú verði blásið í bóluna með auknum ríkisútgjöldum líkt og var gert síðast þegar hagkerfið var í uppsveiflu kosningaárið 2007.