Guðmundur Ragnarsson formaður VM – félags vélstjóra og málmtæknimanna og stjórnarmaður í Gildi-lífeyrissjóði, næst stærsta einstaka eiganda bréfa í félaginu, vill selja hlutabréf sjóðsins í N1. Sjóðurinn á sem nemur 9,22% hlutabréfa í olíufélaginu.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hefur Lífeyrissjóður verzlunarmanna, stærsti einstaki eigandinn í olíufélaginu lýst furðu sinni á háum launum forstjóra fyrirtækisins. „Ósmekkleg launahækkun forstjóra N1 má ekki standa. Mér, sem svo mörgum öðrum, er misboðið,“ segir Guðmundur í grein á vef félagsins.

„Ég sit í stjórn Lífeyrissjóðsins Gildis og ætla að nota aðstöðu mína sem stjórnarmaður til að krefjast þess að sjóðurinn sendi sterk skilaboð inn á hlutabréfamarkaðinn, með því að selja hlutabréf sjóðsins í N1.“ Guðmundur hyggst leggja fram formlega tillögu um sölu hlutabréfanna á næsta stjórnarfundi Gildis, sem er fimmtudaginn 22. mars næstkomandi.

„Ég set stórt spurningarmerki við hæfi forstjórans og stjórnar félagsins ef þau eru ekki hæf til að lesa inn í ástandið í samfélaginu,“ segir Guðmundur. „Hvernig fer þetta fólk að því að leggja mat á markaðinn sem fyrirtækið starfar á, ef þau ná ekki að vera í sambandi við samfélagið sem þau búa í.“