Sjóðsstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins telur að Ólympíuleikana ætti að halda í Aþenu í Grikklandi, eins og tíðkaðist á fornöld, og halda þá þar til frambúðar. Þetta sagði Lagarde á fundi í Aspen, Colorado.

„Ef það gæti skapað eftirspurn, sem er eitthvað sem [gríska] hagkerfið þarf verulega á að halda, þá væri það frábært,” sagði Lagarde. „Mér finnst það vera góð hugmynd, hugsuð út fyrir kassann.”

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur unnið náið með Grikklandi í kjölfar efnahagskreppunnar sem skall á árið 2008 og hafði veruleg áhrif á hagkerfi þjóðarinnar. AGS hefur veitt Grikkjum mörg neyðarlán síðan þá.

Talsverður ótti hefur gripið um sig varðandi Ólympíuleikana sem haldnir verða í Rio De Janeiro í ágúst þessa árs vegna Zika-veirunnar svokölluðu sem berst milli manna með Moskító-flugum og getur valdið fæðingargöllum í fóstrum.

Ólympíuleikarnir voru fyrst haldnir í Grikklandi til forna, guðunum forngrísku til heiðurs. Þar var meðal annars keppt í glímu, spjót- og kringlukasti, hlaupi og fleiri íþróttum, og komu menn úr flestum grískum borgríkjum til að keppa.

Viðtalið við Lagarde má sjá hér að neðan: