Tímamörk á álagningu opinberra gjalda á einstaklinga voru færð fram á þessu ári og skilafrestur skattframtala stórra lögaðila styttur. Álagning hafði verið í kyrrstöðu í mörg ár, en breytingarnar tóku mið af þörfum hagstjórnar og framteljenda. Ríkisskattstjóri hefur lagt til að álagningu lögaðila verði flýtt fyrir, en ekki eru allir á sama máli um ágæti slíkra breytinga og hefur tillagan valdið áhyggjum í stétt endurskoðenda og annarra fagaðila. Félag löggiltra endurskoðenda (FLE) ætlar að beita sér fyrir breytingum á þessum efnum.

Álagning og styttri skilafrestur

Álagning opinberra gjalda á einstaklinga og lögaðila fylgdust að á Íslandi fram til ársins 1998. Fyrir þann tíma höfðu tímamörk álagningar verið um mánaðarmót júlí og ágúst á hverju ári nánast frá því að skattstjórar hófu störf snemma á 20. öld. Árið 1998 var tekið upp nýtt staðlað rekstrarframtal og var álagningu lögaðila lokið síðar, eða 31. október. Með lögum nr. 124/2015 var lögfest undir lok síðasta árs að álagning opinberra gjalda á einstaklinga yrði færð fram um einn mánuð til 30. júní ár hvert, í fyrsta sinn á árinu 2016.

„Aðgerðin gekk mjög vel. Það var almenn ánægja með hana meðal framteljenda. Skilin voru með allra bestu móti. Þetta voru bestu framtalsskil sem við höfum fengið með einni undantekningu“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri í samtali við Viðskiptablaðið. Ekki er ósennilegt að álagningin verði færð enn framar á næstu árum eða að álagning verði eftir hendinni þegar framtöl eru staðfest.

Skil atvinnumanna á skattframtölum viðskiptamanna 2016 á vef RSK þann 3. mars taka fram að ákveðið hafi verið að skil á skattframtölum stærri lögaðila yrðu fyrr en áður, eða frá 1. mars til 31. maí, í samræmi við jafna dreifingu. Álagningin er samt sem áður sú sama. Stórir lögaðilar eru þeir sem eru með veltu yfir 600 milljónum króna og eignir yfir 300 milljónum samkvæmt stærðarmörkum nýrra ársreikningalaga, en þeir eru undir 2% af 40 þúsund lögaðilum á Íslandi. Engin ákvörðun hefur verið tekin um flýtingu álagningar lögaðila, en ríkisskattstjóri hefur boðað frekari endurmat á skilafresti lögaðilaframtala með það fyrir augum að álagningu þeirra ljúki fyrr en áður hefur verið – jafnvel til loka maí.

Hagstjórnarsjónarmið og þarfir framteljenda

Breytingunni í álagningu einstaklinga var hrint í framkvæmd vegna almenns vilja til þess að komast hjá því að tilkynna um niðurstöðu álagningar á helsta sumarleyfistíma landsmanna og færa álagninguna framar í tíma. Enn fremur hafi einfaldari framtalsskil undanfarin ár vegna rafvæðingar kallað fram auknar vangaveltur um flýtingu álagningar. Ein veigamesta ástæðan fyrir breytingunum var þó krafa hagstjórnarinnar um að upplýsingar úr skattframtölum yrðu aðgengilegar í hagstjórnarskyni fyrr en hafði verið. Álagning er ekki einungis seðill yfir opinber gjöld sem einstaklingum og lögaðilum ber að greiða, heldur einnig upplýsingabrunnur um hagstærðir á borð við tekjur, eignir og veltu, skiptingu þeirra milli atvinnugreina og þróun yfir tíma, sem og hvernig þjóðfélaginu miðar áfram. Ríkisskattstjóri afhendir upplýsingarnar til hagstjórnarinnar í október, en Skúli Eggert segir þann frest vera of seinan og að nauðsynlegt sé fyrir skilvirka hagstjórn að fá gögnin fyrr, sérstaklega framtöl lögaðila.

Ríkisskattstjóri segir embættið hafa rætt ítrekað við endurskoðendur og aðra fagaðila og hvatt þá til að skila framtölum fyrr. Sérstaklega sé brýnt að ljúka álagningu lögaðila fyrr, einkum hinna stærri, í ljósi þess að langflest stór félög hafa haldið sína aðalfundi og uppgjörin liggja fyrir á milli mars og maí ár hvert, löngu áður en álagningin fer fram.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .