Steve Bannon, nánasti ráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta, hefur lagt til að tekjuskattar á einstaklinga með yfir 5 milljónir dollara í árstekjur verði hækkaður í um 44 prósentustig. Þetta kemur fram í frétt á vef Bloomberg .

Vill Bannon nota auknar skatttekjur til þess að lækka skatta á bandarísku millistéttina. Ekki er ljóst hvort að forsetinn styðji tillöguna en hann hefur talað fyrir því að gera umbætur á skattkerfi Bandaríkjanna. Samkvæmt tillögum að breytingum á skattkerfinu sem Hvíta húsið birti í apríl síðastliðnum virtist sem breytingarnar væru frekar ætlaðar þeim sem hafa hæstar tekjur. Gerðu áætlanirnar ráð fyrir þremur skattþrepum þar sem skattur í efsta þrepinu yrði 35%.

Ef að tillögur Bannon fá brautargengi yrði tekjuskattur á hátekjufólk 44% en hann er í dag 39,6%. Yrði það hæsta skattstig í Bandaríkjunum í yfir 30 ár.