Angela Merkel þýskalandskanslari sagðist í dag vera tilbúin að gera allt sem í hennar valdi stendur til að finna málamiðlun með Bretum til að tryggja áframhaldandi samstarf þeirra við önnur Evrópuríki. „Við erum sannfærð um það frá sjónarhóli Þýskalands að áframhaldandi vera Bretlands í Evrópusambandinu sé ákjósanleg,“ segir hún.

Þetta var haft eftir henni í tilefni kvöldverðar sem hún mun snæða með David Cameron forsætisráðherra Bretlands í Hamborg í kvöld. Er honum ætlað að efla tengsl Bretlands við ríki Evrópusambandsins vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Bretlands í ESB sem stefnt er að á næsta ári.

Talsmaður Merkel sagði að kanslarinn væri bjartsýn á að hægt væri að komast að samkomulagi á milli Bretlands og ESB. „Það er alltaf vilji til að gera málamiðlanir innan Evrópusambandsins,“ sagði hún.