Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ræddi mögulega sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gær. „Ég vonast til þess að við getum á næstu vikum þess vegna látið á það reyna hvort við fáum tillögu frá Bankasýslunni og lagt fyrir þingið áætlun um það hvernig verði farið í það mál. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það fari að gerast.”

Bjarni sagði að í augnablikinu væri einblínt á losa eignarhald ríkisins en sagðist tilbúinn til að taka umræðuna um sameiningu viðskiptabankanna.

„Það er spurning hversu raunhæft það er fyrir okkur að treysta á þriggja banka samkeppni, þá er ég að horfa á stóru bankana, það eru vissulega fleiri fjármálafyrirtæki í landinu. Það hafa komið fram sjónarmið um að við ættum að skoða sameiningu á bönkunum, sem flestir mundu telja í dag að væri andstætt samkeppnislögunum, en við höfum enn ekki stigið það skref,” sagði Bjarni og bætti síðar við:

„Við höfum engin erindi um að taka þetta til skoðunar. Ég vísa til Hvítbókarinnar, sem segir að lögin gera ráð fyrir því að næstu skref í þessu máli verði að frumkvæði Bankasýslunnar að koma með tillögur til ríkisstjórnarinnar. En ég er vel til í að taka þátt í umræðu um það hvort það séu rök fyrir því að stærri eining geti mögulega skilað meiri hagkvæmni. En þá erum við alltaf með á hinni vogarskálinni þessi samkeppnislegu sjónarmið og það er erfitt til þess að hugsa að það fækki enn frekar þeim sem taka þátt í að veita þessa þjónustu á Íslandi í dag. Og maður hefur auðvitað áhyggjur af þeirri samkeppnisstöðu sem þar kemur upp. Og það er það sem vegur á móti hagkvæmnirökunum,” sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í kvöldfréttum Ríkissjónvarpssin.