Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá Gamma, segir ákvörðun Seðlabankans frá því á mánudag um að herða höft á innflæði fjármagns vera til að stoppa í göt á fjármagnshöftunum. Segir hann það tengjast möguleikum erlendra aðila á útgáfu svokallaðra jöklabréfa að því er Morgunblaðið greinir frá.

Bendir hann jafnframt á að erlendum fjárfestum séu settar sömu skorður á kaupum á skuldabréfum sem ekki séu rafræn.

Sömu skorður á rafrænum og órafrænum skuldabréfum

„Slík skuldabréf eru í flestum tilfellum illseljanleg á markaði og því undarlegt að fjárfesting í þeim sé heft ef tilgangurinn er að stöðva svokölluð „vaxtamunarviðskipti“, sem venjulega eru hugsuð til frekar skamms tíma í vel seljanlegum skuldabréfum eins og ríkisskuldabréfum,“ segir Agnar Tómas.

„Það er mikill galli á útfærslu innflæðishaftanna að ekki sé gerður neinn greinarmunur á skammtíma- og langtímafjárfestum.“

Þurfa erlendar fjárfestingar

Bendir Agnar Tómas á að nú eftir afnám fjármagnshaftanna að mestu leyti muni fjármagn fara að streyma til fjárfestinga erlendis á ný.

„Við þessar aðstæður mun íslenskt viðskiptalíf þurfa á erlendu langtímafjármagni að halda. Eftir því sem tímanum vindur fram mun fjármögnunarkostnaður íslenskra fyrirtækja fara hlutfallslega vaxandi vegna skorts á langtímafjármagni, þar sem fjármagnskjör munu ekki ná að fylgja lækkandi grunnvöxtum,“ segir Agnar Tómas sem segir brýnt að aflétta hömlum á erlenda langtímafjárfestingu í skuldabréfum hérlendis.

„Seðlabankinn stöðvaði í raun alla erlenda fjárfestingu í skuldabréfum um mitt ár 2016 með mjög harðri útfærslu á innflæðishöftunum. Þeir sem fjárfesta í skuldum þar sem lánstíminn er til margra ára eru þolinmóðir fjárfestar og því ætti að vera sjálfsagt að heimila slíkar fjárfestingar, á sama tíma og Seðlabankinn setur aðrar hömlur á innflæði skammtímafjármagns.“

Hægt að fjárfesta til skamms tíma í hlutabréfum

Segir Agnar Tómas það skjóta skökku við að á sama tíma sé erlendum fjárfestum heimilt að fjárfesta í hlutabréfum, sem séu áhættusamari, en þar sé hægt að fjárfesta til skamms tíma.

„En innflæðishöftin eru hins vegar með öllu óþörf í dag og jafnframt mjög skaðleg fyrir íslenskt efnahagslíf - því væri best að þeim væri nú með öllu aflétt, eins og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn mælti með í nýlegri heimsókn sinni á Íslandi,“ segir Agnar Tómas.