Fjármála- og efnahagsráðherra, handhafi hlutabréfsins í Íslandspósti ohf., segir að ekkert sé því til fyrirstöðu að selja fyrirtækið þegar nauðsynlegar breytingar hafa verið gerðar á rekstrinum. Þetta kemur fram í viðtali við Fréttablaðið .

„Það hefur lengi verið mín skoðun að þegar búið er að koma lagaumgjörð um þessa starfsemi í betra horf, eins og við höfum verið að gera núna, og gera nauðsynlegar breytingar á rekstrinum þá sé ekkert því til fyrirstöðu að ríkið selji þennan rekstur,“ segir Bjarni við Fréttablaðið.

Ný heildarlöggjöf um póstþjónustu var samþykkt áður en þingið fór í sumarfrí. Hún felur í sér að einkaréttur ríkisins á dreifingu bréfa undir 50 grömmum verður afnuminn. Því mun allur rekstur Póstsins vera í samkeppni við einkaaðila eftir að lögin taka gildi um næstu áramót. Mögulegt er að breytingar verði gerðar á lögunum á komandi haustþingi áður en þau taka gildi.

Staða Íslandspósts hefur verið slæm undanfarin ár sökum lausafjárþurrðar. Fyrirtækinu var um árabil haldið gangandi með yfirdráttarlánum. Afkoma áranna 2016 og 2017 var betri en hana má rekja til óvænts hagnaðar af einkaréttinum. Afkoman var svo góð að til skoðunar var af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar að afturkalla samþykki sitt á gjaldskrá einkaréttar þar sem vafi var um að sú afkoma væri í samræmi við lög um póstþjónustu.

Lagt var af stað í talsverðar fjárfestingar í kjölfarið en um það leyti lokaði Landsbankinn, viðskiptabanki félagsins, fyrir frekari lánalínur til þess þar sem veðrými var uppurið. Fjallað er nánar um það í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Að mati ráðherra er nauðsynlegt að koma skikki á reksturinn áður en til sölu kemur.

„Hins vegar held ég að það hafi ekki verið aðstæður til þess undanfarin misseri eða ár að hefja undirbúning að slíkri sölu vegna þess hvernig reksturinn hefur gengið,“ segir Bjarni.