Ólafur Stephensen hefur frá árinu 2014 stýrt Félagi atvinnurekenda og hefur þar einkum látið samkeppnismál sig varða. Áður starfaði Ólafur um áratugaskeið í fjölmiðlum og ritstýrði þremur blöðum á þeim tíma. Ólafur segir að hans pólitísku skoðanir rími mjög vel við starfið innan Félags atvinnurekenda, en að þær hafi mótast mjög snemma.

„Þau ár sem ég skrifaði skoðanagreinar og leiðara í blöð, sem var í rúma tvo áratugi, lagði ég alla tíð áherslu á frjáls viðskipti og frjálsa alþjóðaverslun, umbætur í frelsisátt í landbúnaðarkerfinu og hag neytenda af lækkunum á sköttum og gjöldum. Þessar skoðanir voru nokkuð fastmótaðar þegar ég byrja sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Ég held að þar hafi uppeldið ráðið miklu. Á mínu æskuheimili var mikið rætt um pólitík. Pabbi var sjálfstæðismaður, en mamma er jafnaðarmaður í hjarta sínu. Hún kaus samt áreiðanlega oft Sjálfstæðisflokkinn, fannst það vissara á þessum árum kalda stríðsins.“

Það vill svo skemmtilega til að Ólafur var nýlega að taka til í gömlu dóti og fann þar úrklippur af því sem hann var að skrifa sem formaður Heimdallar á árunum 1987-1989. „Þetta eru að meginstefnu til sömu málin og ég er enn að fjalla um núna. Frjálsara landbúnaðarkerfi, lægri tollar, frjáls alþjóðaverslun. Þannig að þetta er búið að vera mitt umræðuefni nokkuð lengi. Ég byrja sem blaðamaður í deild erlendra frétta á Morgunblaðinu árið 1987 og er kominn í hóp leiðarahöfunda á blaðinu árið 1992. Árið 2001 verð ég aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins og árið 2007 tek ég við sem ritstjóri 24 Stunda. Ári síðar varð ég ritstjóri Morgunblaðsins og gegndi því starfi  til haustsins 2009.“

Á þessum tíma tók Ólafur sér þó tveggja ára frí frá blaðamennsku og vann annars vegar fyrir Símann, þegar það fyrirtæki var að stíga skref frá því að vera ríkiseinokunarfyrirtæki í að vera venjulegt fyrirtæki á markaði, og hins vegar fyrir Samtök atvinnulífsins. „Þessi reynsla styrkti mig bara í trúnni á mikilvægi frjálsa markaðarins og heilbrigðrar samkeppni á þeim markaði.“

Gott að hafa „plan B“

Eftir að hafa starfað sem ritstjóri 24 stunda og svo Morgunblaðsins tók Ólafur við sem ritstjóri Fréttablaðsins. „Það gekk vel framan af, en þegar líða tók á komu upp erfiðleikar í samstarfi  mínu við eigendur, eins og er á allra vitorði. Ég taldi á endanum að mér myndi ekki takast það áfram að standa vörð um sjálfstæði mitt sem ritstjóri og gekk þarna út.

Ég er því meira og minna í fjölmiðlum samanlagt í 27 ár með örlitlum hléum og þegar ég hætti á Fréttablaðinu var ég í raun búinn að ákveða að ég væri búinn í fjölmiðlum í bili. Þegar maður er í stjórnunarstörfum hjá fjölmiðlum verður maður alltaf að hafa eitthvert „plan B“, enda er starfsöryggi ritstjóra ekki alltaf mikið.

Viðtalið í heild sinni má finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.