Er útgerðarrekstur og rekstur fiskvinnsluhúss sams konar eða sambærilegur frá sjónarhól skattaréttarins? Svo virðist ekki vera miðað við nýlegan úrskurð yfirskattanefndar í máli sem varðar Vísi í Grindavík. Afleiðingin er sú að áður ónotað rekstrartap, alls rúmlega 193 milljón krónur, nýtist ekki.

Á árinu 2017 ákvað stjórn Vísis að þrjú dótturfélög þess, félögin Bernskan ehf., Seljabót 2 hf. og ECO sjávarafurðir ehf., skyldu renna saman við móðurfélagið. Eitt þeirra, það er Seljabót 2, var eigandi fasteignar sem var innréttað sem slægingarstöð og vinnslusalur fyrir sjávarfang. Umrætt félag hafði verið rekið með tapi um nokkurt skeið og í kjölfar samrunans hafði Vísir hug á að nýta ónýtta tapið til skattafrádráttar.

Sem kunnugt er tíðkaðist það á síðari hluta síðustu aldar að félög keyptu önnur slík, sem oft voru eigna- og skuldlaus en áttu yfirfæranlegt tap, og sameinuðust þeim með það að marki að nýta eftirstöðvar rekstrartaps til að þurrka út skattstofna. Því er það svo nú að slíkt fylgir ekki við samruna nema að ströngum skilyrðum uppfylltum. Í fyrsta lagi skulu félögin vera í skyldum rekstri eða starfsemi, tapið verður að hafa myndast í sams konar rekstri og samruninn gerður í eðlilegum rekstrartilgangi. Þá verður félagið sem slitið var að hafa stundað rekstur fyrir samrunann og má ekki hafa átt óverulegar eignir. Öll skilyrðin þurfa að vera uppfyllt svo að unnt sé að færa sér tapið í nyt.

Töldu ekkert uppfyllt

Skemmst er frá því að segja að í umræddu máli taldi Skatturinn að fyrstnefndu þrjú skilyrðin væru ekki uppfyllt. Rekstrartap Seljabótar hefði myndast í fasteignarekstri en Vísir væri á hinn bóginn útgerð. Þótt umrædd fasteign væri nýtt til að vinna sjávarfang gæti útleiga fasteignar ekki talist sams konar eða svipaður rekstur og útgerð. Þá hefði Vísir ekki fært nein rök fyrir því að samruninn hefði verið gerður í eðlilegum rekstrartilgangi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .