Árið 2016 tilkynnti ferðaþjónustufyrirtækið Prime Tours ehf. vinnuslys til Sjúkratrygginga Íslands, en ekki til vinnueftirlitsins. Vinnueftirlitið sendi fyrirtækinu póst á síðasta ári þar sem því var gert að tilkynna slysið til eftirlitsins, og þegar enn hafði engin tilkynning borist voru fyrirmælin ítrekuð með bréfi þann 6. febrúar síðastliðinn. Loks var gefinn 14 daga frestur til að koma að andmælum með bréfi 1. júní, en ekkert svar barst við því heldur.

Vinnueftirlitið ákvað í kjölfarið, þann 27. júní síðastliðinn, að leggja dagsektir að upphæð 10.000 krónum á dag á fyrirtækið þangað til tilkynning um slysið bærist eftirlitinu. Eftir að sú ákvörðun var birt fyrirtækinu gerði það viðeigandi úrbætur í samræmi við ákvörðun eftirlitsins, og slapp því við dagsektirnar.