Skráð atvinnuleysi hér á landi var 5% í september og lækkaði úr 5,5% í ágúst samkvæmt mánaðartölum Vinnumálastofnunar . Atvinnleysi er nú jafn hátt og það var í febrúar árið 2020 þegar fyrsta kórónuveirusmitið greindist hér á landi.

Því segir Vinnumálastofnun að svo virðist sem að atvinnuleysistoppurinn vegna faraldursins sé liðinn hjá. Hæst fór atvinnuleysi í 17,8% í apríl 2020 að meðtöldum þeim sem voru á hlutabótum en sé horft fram hjá hlutarbótum reis atvinnuleysi hæst í faraldrinum í 11,6% í janúar árið 2021.

Atvinnuleysi hafði þó verið á uppleið fyrir faraldurinn og í febrúar árið 2020 var skráð atvinnuleysi það hæsta frá því í byrjun árs 2013

Atvinnulausir voru alls 10.428 í lok september, 5.726 karlar og 4.702 konur og fækkaði atvinnulausum körlum um 432 frá ágústlokum og atvinnulausum konum fækkaði um 639. Af þeim 1.071 atvinnulausu sem fækkaði á atvinnuleysisskrá í september fóru ca. 450 á ráðningarstyrk, hins vegar bættust um 1.600 nýir atvinnuleitendur við í september

Mest er atvinnuleysi áfram á Suðurnesjum eða 9,1% en var 9,7% í september. Vinnumálastofnun býst við 5-5,3% atvinnuleysi í október. Alls höfðu 4.598 atvinnuleitendur verið án atvinnu í meira en 12 mánuði í lok september og fækkaði um 485 frá ágúst. Hins vegar voru þeir 3.274 í septemberlok 2020.