Vinnumálastofnun hefur nú leiðrétt bótatímabil þeirra einstaklinga sem höfðu virkjað rétt sinn til atvinnuleysisbóta fyrir 1. janúar 2015 og eru að þiggja greiðslur vegna atvinnuleysisbóta frá frá stofnuninni í dag. Eru þetta um 1200 einstaklingar sem leiðréttingin nær til. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Vinnumálastofnun.

Leiðréttingin kemur í kjölfarið á dómi Hæstaréttar frá 1. júní síðastliðnum þar sem kom meðal annars fram að Alþingi hafi verið óheimilt að að skerða bótarétt þeirra sem höfðu virkjað bótarétt fyrir 1. janúar 2015 og eiga þeir þar með rétt á 36 mánaða bótatímabili. Taldi ríkið sig geta sparað 1.130 milljónir króna með þessum breytingum.

Forsaga málsins er sú að VR höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu vegna breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar sem tóku gildi í ársbyrjun 2015. Dómurinn féll VR í vil og var niðurstaðan sú að ríkið hafi brotið gegn stjórnarskrárvörðum rétti félagsmanna VR til atvinnuleysisbóta sem og annara einstaklinga sem breytingin náði til á þeim tíma. .

Vinnumálastofnun mun nú á næstu vikum setja sig í samband við alla þá sem fullnýttu 30 mánuði af bótatímabili sínu eftir 1. janúar 2015 og fram til 1. júní 2017 í því skyni að leiðbeina þeim um hugsanlegan rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Stofnunin mun hafa samband við þá einstaklinga sem kunna að eiga slíkan rétt eftir því hvenær viðkomandi fullnýtti 30 mánaða bótarétt sinn.

Vinnumálastofnun hefur nú þegar hafið vinnu við að hafa samband við alla þá sem fullnýttu bótatímabil sitt frá apríl til júní 2017. Í þessari viku verður haft samband við þá sem fullnýttu bótatímabil sitt á tímabilinu janúar til mars 2017. Í kjölfar þess mun stofnunin hafa samband við þá sem fullnýttu bótatímabil sitt á tímabilinu janúar til apríl 2015 o.s.frv. þar til að stofnunin hefur haft samband við alla þá sem fullnýtt hafa bótatímabil sitt eftir 1. janúar 2015.

Er það markmið Vinnumálastofnunar að búið verði að hafa samband við alla fyrir lok september. Enn fremur er það markmið Vinnumálastofnunar að hafa lokið greiðslu atvinnuleysisbóta til allra þeirra sem eiga rétt til þess á grundvelli dóms Hæstaréttar eigi síðar en í byrjun nóvember nk.