Heilar 60% af tekjum plötuútgefenda eru ennþá gegnum sölu á CD og vínylplötur. Þrátt fyrir að streymisþjónustur á borð við Spotify njóti síaukinna vinsælda fá rétthafar ekki greitt í réttu hlutfalli við spilanir.

Lárus Jóhannesson er bjartsýnn fyrir því að plötusala muni verða stöðug þrátt fyrir uppgang tónstreymissíðanna. Lárus er meðlimur stjórnar Félags hljómplötuframleiðenda á Íslandi auk þess sem hann rekur plötubúðina 12 Tónar á Skólavörðustíg.

Betra að fjárfesta í íslenska tónlistarhagkerfinu

„Tekjumódel streymisþjónustunnar er þannig að þeir sem eru vinsælastir eru að fá mesta peninginn,” segir Lárus. „Segjum til dæmis að maður sé áskrifandi að Spotify, og greiði 1.500 krónur á mánuði í áskriftargjald í það.”

„Jafnvel þótt ég hlustaði einungis á plötur með Bubba Morthens myndu aðeins örfáar ef einhverjar krónur af þessum 1.500 skila sér til Íslands.”

Þegar neytandi kaupir íslenska plötu skilast sá peningur aftur inn í tónlistarhagkerfi Íslands, segir Lárus. Það sé talsvert skárra fyrir framleiðendur og útgefendur efnisins.

Jafnvægi í hlustun neytenda

„Það er von okkar að það komist á jafnvægi í hlustunarmynstrum neytenda. 20 milljón manns borga fyrir þjónustuna meðan rétt rúmlega 80 milljónir hlusta frítt en hlusta á auglýsingar í staðinn,” segir Lárus.

Lárus segir að þess sé vert að minnast á að Spotify hafi gífurlegar auglýsingatekjur af þessum 80 milljón hlustendum. Fjármagn sem hlýst af auglýsingasölu skilar sér ekki til tónlistarfólksins, heldur beint til fyrirtækisins.

„Annað hvort þyrftu fleiri að skrá sig í áskrift eða mánaðargjaldið þyrfti að hækka til þess að minni flytjendur eins og þeir íslensku fengu sanngjarna fjárhæð fyrir hlustanir á plöturnar sínar.”

Hefð fyrir plötugjöf um jólin

Það hefur lengi verið hefð fyrir því að gefa CD- og vínylplötur í jólagjöf, að sögn Lárusar. Þá séu kaup á vínylplötum sérstaklega að færast í aukinn síðustu ár.

„Vínylplatan er talsvert eigulegri gripur en mp3-skrá, og hvað þá að hafa aðgang að öllu en eiga ekkert sjálfur,” segir Lárus. „Ég elst upp við að vínylplatan sé aðaltónlistarformið og það gleður mig að sala á vínyl sé að aukast eins og hún hefur gert.”