Vírusinn sem hóf að taka tölvur um allan heim gíslingu á föstudag hefur haldið áfram að valda skaða um helgina og mun að öllum líkindum halda því áfram eftir helgina. Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um , þá hefur árásin sérstaklega komið sér illa fyrir heilbrigðisstofnanir víða um heim, en talið er að um sé að ræða stærstu netárás sögunnar.

Hefur hún haft áhrif á að minnsta kosti 200 þúsund stofnanir og fyrirtæki í 150 löndum að því er Europol hefur tilkynnt um. Þetta kemur fram hjá fréttastofu Fox . Samevrópska samstarfstofnunin í lögreglumálum sagði að hún byggist við því að árásirnar myndu halda þegar fólk myndi snúa til vinnu á morgun mánudag og kveikti á tölvum sínum.

Sagði Steven Wilson, yfirmaður tölvuglæpadeildar Europol að mikilvægt væri að tölvudeildir fyrirtækja könnuðu kerfin hjá sér áður en starfsemi hæfist í fyrirtækjunum á mánudag. ,,Þetta er virkilega vel framkvæmd aðgerð. Það sem er nýtt er notkunin á forriti sem lærir að vinna sig í gegnum kerfin, þetta er umfram það sem við höfum nokkurn tíman séð fyrr," sagði Steven.

Rob Wainwright, framkvæmdastjóri hjá Europol sagði að útbreiðsla vírussins væri umfram það sem nokkurn tíman hefði sést fyrr. ,,Nýjasta talningin er að fórnarlömb árásarinnar eru yfir 200 þúsund í 150 löndum, og mörg þessara fyrirtækja eru stór fyrirtæki," sagði Wainwright.