Hagnaður VÍS nam 73 milljónum króna á síðasta ársfjórðungi samanborið við tæpa 2 milljarða á sama fjórðungi í fyrra. Þetta kemur fram í nýbirtum árshlutareikningi félagsins .

Munurinn liggur helst í fjárfestingatekjum, sem voru jákvæðar um 2,5 milljarða í fyrra en aðeins 366 milljónir í ár, enda hefur árið í ár farið heldur brösulegar af stað á fjármálamörkuðum en það síðasta. Virði Controlant var auk þess lækkað um 23% eða 250 milljónir króna á fjórðungnum.

Tryggingarreksturinn skilaði 243 milljóna króna tapi og samsett hlutfall var 106,1%, sem þó var lægra en á sama tímabili í fyrra þegar það var 108% og tapið 405 milljónir.

Haft er eftir Helga Bjarnasyni forstjóra félagsins í tilkynningu um uppgjörið að fyrsti fjórðungur sé „almennt og yfirleitt tjónaþungur“. Spá félagsins frá því í janúar fyrir árið í heild stendur óbreytt og gerir ráð fyrir samsettu hlutfalli á bilinu 95-97%.

Líftryggingarekstur skilaði 118 milljóna hagnaði, svo til sömu upphæð og í fyrra, en skaðatryggingarekstur 360 milljóna tapi samanborið við 524 milljónir. Fjármálarekstur skilaði 284 milljónum sem er 88% fall frá fyrra ári.

Iðgjöld fjórðungsins námu 5,7 milljörðum og jukust um 3,2% en tjón 4,5 milljörðum og drógust saman um 3,3%. Rekstrarkostnaður jókst hinsvegar um 5,4% og nam ríflega 1,5 milljörðum.

Heildareignir stóðu í tæpum 60 milljörðum í lok fjórðungsins og eigið fé í 17 milljörðum eftir 3,5 milljarða króna arðgreiðslu.