Þrátt fyrir að Boeing 737 Max flugvélarnar hafi verið kallaðar mest rannsökuðustu farþegaflugvélar í flugsögunni hafa sumir flugsérfræðingar enn áhyggjur af öryggi flugvélanna, að því er BBC greinir frá.

Max vélarnar fengu leyfi til að snúa í háloftin á nýjan leik undir lok síðasta árs eftir að hafa verið kyrrsettar á heimsvísu í hátt í tvö ár. Voru þoturnar kyrrsettar í kjölfar tveggja mannskæðra slysa sem orsökuðust af bilun í svokölluðu MCAS-kerfi (e. Maneuvering Characteristics Augmentation System).

Í frétt BBC segir að frá því að 737 Max vélarnar hafi snúið í loftið á nýjan leik hafi nokkur „alvarleg vandamál" verið tilkynnt á meðan flugum á þotunum stóð. Boeing fullyrðir þó að vélarnar séu bæði öruggar og áreiðanlegar.

Í frétt BBC er vísað til atviks sem átti sér stað í Boeing 737 þotu sem fljúga átti frá Seattle til Brussel. Um var að ræða flug þar sem afhenda átti glænýja þotu úr verksmiðju Boeing til ferðaþjónustufélagsins Tui, sem hafði fest kaup á þotunni. Skömmu eftir flugtak kom þó upp vandamál er flugmaður þotunnar tilkynnti um „áríðandi flugstýringar vandamál" og þurfti að snúa við til lendingar í Seattle þar sem vélin lenti heil og höldnu. Bilunin, sem rekja mátti til sjálfstýringarbúnaðs vélarinnar, var lagfærð nokkuð fljótt og hélt vélin af stað til Brussel degi síðar.

Þetta mun þó ekki hafa verið einangrað tilfelli. Bandarískum flugmálayfirvöldum eru sögð hafa borist ríflega 180 tilkynningar um galla eða bilanir sem komið hafa upp í Max þotum. Í flestum tilfellum uppgötvuðust gallar eða bilanir á jörðu niðri, en í 22 skipti komu upp atvik á meðan flugi stóð og í fjórum þeirra lýstu flugmenn vélanna yfir neyðartilfelli.

Í yfirlýsingu vísar Boeing áhyggjum af öryggi 737 Max vélanna á bug. Bendir flugvélaframleiðandinn á að síðan 737 Max þoturnar sneru á ný í loftið hafi þær flogið um 240 þúsund ferðir um heim allan, og á degi hverjum fljúgi slíkar þotur í um 1.300 skipti. Í ríflega 99% tilfella gangi flugin snuðrulaust fyrir sig, og þetta hlutfall sé í samræmi við aðrar gerðir flugvéla sem notast er við í farþegaflutningum.