Greiningardeild Arion banka spáði að lækkun milli mánaða í júlí yrði 0,3% en í raun var hún einungis 0,02%, svo ársverðbólgan hefur hækkað úr 1,5% eins og þeir spáðu í 1,8%. Líkt og áður var það sérstaklega hækkun húsnæðisverðs í júlí sem knúði verðbólguna áfram, en einnig 20% hækkun flugfargjalda til útlanda, og var hvort tveggja umfram spá bankans.

Segir greiningardeildin jafnframt að sumarútsölur séu að hafa meiri áhrif á vísitölu neysluverðs en oft áður, að síðasta ári undanskildu, en til að mynda nemur lækkun á fatnaði og skóm um 11%, sem er aðeins meiri en sú 10,6% sem bankinn spáði. Segja þeir að það sem kom þeim á óvart var 3,63% lækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði, þar sem þeir spáðu einungis 1% lækkun, en einnig lækkuðu snyrtivörur um 1,57% og skartgripir um heil 4,84% milli mánaða.

Misvísandi tölur um fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu

Segir bankinn að þvert á spár sínar um að húsnæðismarkaðurinn myndi hægja á sér í júlí hafi húsnæðisliðurinn hækkað um 1,12% milli mánaða, svo árstaktur hækkunarinnar hafi farið úr 23,2% í 24,4%.

Þvert á þá verðhjöðnun í húsnæðiskostnaði sem mældist í síðasta mánuði utan höfuðborgarsvæðisins hækkaði reiknuð húsaleiga um 5% þar milli mánaða. Jafnframt segja þeir að hressileg hækkun hafi verið á fasteignaverði í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu, eða um 1,5% á milli mánaða.

Síðan ræða þeir um að vísitala íbúðarverðs sem líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um, ÞJóðskrá birti í vikunni hafi hún einungis hækkað um 0,2% á milli mánaða. Hafi eins lítil hækkun á milli mánaða ekki sést síðan í ágúst 2015, en sérstaka athygli hafi vakið lækkun á fjölbýli um 0,2%, sem hafi ekki gerst síðan í júní 2015.

Telja þeir að þar með séu að uppfyllast spár þeirra frá því í júní um að framboðsaukning myndi hægja á hækkun húsnæðisverðs.

Flugfargjöld hækka þrátt fyrir kólnun

Þrátt fyrir vísbendingar um kólnun í ferðamannageiranum segja þeir flugfargjöld enn fara hækkandi sem komi þeim á óvart. Er þetta mesta hækkun sem sést hefur í júlí undanfarin ár, fyrir utan júlí 2015, en hækkunin nam 20,4%. Einnig hafi gisting hækkað í verði um 5,23% milli mánaða, sem er þvert á vísbendingar um fallandi neyslu ferðamanna. Veitingastaðir hafi þó brugðist við með því að verðlag þar hafi staðið í stað.

Ef horft er á ársverðbólguna án húsnæðis mælist í júlí verðhjöðnun líkt og undanfarið. Nam hún 2,9% í júli, sem eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um í morgun leiðir til 3,1% ársverðhjöðnun. Veltir greiningardeildin að lokum fyrir sér hvort verðbólguþrýstingurinn dugi til að koma verðbólgunni af stað ef húsnæðisverð fari að gefa eftir, en þar komi styrking krónunnar fyrst og fremst inn.