Í gær, þegar ár var liðið frá falli Wow air sagði Skúli Mogensen, stofnandi og aðaleigandi félagsins, að hann hefði aldrei trúað því að ári síðar væri nánast hvert einasta flugfélag í heiminum á barmi gjaldþrots. Þetta sagði Skúli á facebook síðu sinni þar sem hann segir að á þessu ári hafi vart liðið sá dagur sem hann velti ekki fyrir sér hvað hefði mátt gera betur í rekstrinum.

Jafnframt segist hann sannfærður um að íslensk ferðaþjónusta eigi eftir að ná sér á strik á ný, og þrátt fyrir þann ólgusjó sem flugrekstur sé að fara í gegnum núna myndi hann helst hvergi annars staðar vilja vera. Hann bendir jafnframt á að Ísland hafi svo mikið upp á að bjóða í ferðaþjónustu og í raun einnig til að byggja upp fyrirmyndarsamfélag.

„Vissulega er flugrekstur krefjandi og aðstæður nú engu líkar og ég finn virkilega til með mínum fyrrverandi kollegum út um allan heim þessa dagana sem eru án efa að leggja nótt við dag í að bjarga sínum félögum líkt og við gerðum fyrir ári síðan og ég vona innilega að það takist,“ segir Skúli meðal annars í færslu sinni sem sjá má í heild sinni að neðan.

„Þau eiga öll heiður skilið fyrir að standa vaktina því það er til mikils að vinna, sérstaklega hér á Íslandi þar sem ferðaþjónustan er orðin hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi. Við erum eyland og sennilega hefur aldrei verið jafn augljóst og nú hversu mikilvægar alþjóðlegar tengingar og samgöngur eru fyrir þjóðarbúið.“