Steven Cohen, Warren Buffett og Daniel Loeb, nokkur stærstu nöfn fjármálaheimsins, segjast ekki mjög bjartsýnir um frammistöðu vogunarsjóða þessi misserin. Erfitt hefur verið að finna hæfileikaríkt fagfólk til að starfa fyrir vogunarsjóðina og ávöxtun síðasta árs var ekki eins góð og vonast var til að hún yrði.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um yfir helgina telur fjárfestirinn heimsfrægi Warren Buffett það vera algjöra vitleysu að fjárfesta í vogunarsjóðum. Þá sé fásinna að leyfa vogunarsjóðsstjórum að hafa af sér stórar prósentur fyrir ávöxtun sem er langt neðan fyrir hækkanir almennra vísitalna.

Eins og frægt er hefur Buffett veðjað við firmað Protege Partners um hvort S&P 500 vísitalan eða lúkufylli handvalinna vogunarsjóða myndi hækka meira í virði yfir tíu ára tímabil. Eins og stendur hefur S&P 500 hækkað um 65,7% meðan vogunarsjóðirnir hafa hækkað um 21,9%.

Steven Cohen, milljarðamæringur sem hefur áður stýrði vogunarsjóði með 30% árlega ávöxtun (sem var svo raunar dæmdur fyrir verðbréfasvik árið 2013), segir að mikill skortur sé á hæfileikaríku fólki í geiranum.

„Það er mjög erfitt að finna gott fólk. Við skerum niður 96-98% umsækjenda þar til við einangrum fólkið sem við erum raunverulega áhugasöm um að ráða til vinnu hjá okkur,” segir Cohen. „Hæfileikar eru sannarlega af skornum skammti.”

Á nánast sama tíma sagði Daniel Loeb, stofnandi Third Point vogunarsjóðsins, að frammistaða vogunarsjóða á árinu hafi verið katastrófísk og að þeir væru á fyrsta stigi þess að verða misheppnaðir. Frammistaða í geiranum hefur ekki verið jafn slæm í ár og síðustu sjö árin.

Hér má lesa fréttir Bloomberg um málin .