Vogunarsjóðurinn Melvin Capital Management tapaði um 53% af fjárfestingum sínum í nýliðnum janúar mánuði að því er CNBC greinir frá . Vogunarsjóðurinn þurfti m.a. að súpa seyðið af því að hafa tekið skortstöðu í hlutabréfum Gamestop.

Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um undanfarið hafa hafa almennir fjárfestar á spjallborðinu r/wallstreetbets, á spjallsíðunni Reddit, tekist á við skortsala undanfarin misseri og hefur það leitt til mikillar hækkunar á gengi bréfa Gamestop. Hafa almennu fjárfestarnir einnig herjað á fleiri félög sem vinsælt hefur verið að taka skortstöðu í.

Við lokum markaða á föstudag stóð gengi hlutabréfa Gamestop í 325 dölum og hefur það hækkað um 1.625% á þessu ári. Til samanburðar má nefna að í október á síðasta ári var gengi bréfanna undir 10 dölum á hlut.

Eftir hatramma baráttu við almennu fjárfestana ákvað Melvin Capital að leggja árar í bát og selja sig út úr skortstöðu sinni í Gamestop sl. þriðjudag með miklu tapi.

Virði eigna í stýringu hjá vogunarsjóðnum nemur nú um 8 milljörðum dala, en um sl. áramót nam heildarvirðið um 12,5 milljörðum dala.

Fyrri fréttir Viðskiptablaðisins um ævintýralega hækkun hlutabréfa Gamestop má sjá hér að neðan: