S tjórnvöld í Kína og Bandaríkjunum skrifuðu í gær undir samkomulag sem er fyrsta skrefið í að binda enda á viðskiptastríð milli landanna sem staðið hefur yfir síðastliðin tvö ár. Samkomulagið nú er eins konar vopnahlé á milli landanna en ljóst er að töluvert stendur á milli til þess að deilur ríkjanna fái varanleg endalok, þá sérstaklega á sviði tæknimála.

Í samkomulaginu frá því í gær skuldbinda Kínverjar sig til að auka kaup á bandarískum vörum um 200 milljarða dollara, þar á meðal landbúnaðarvörum sem hafa verið eitt helsta þrætuepli viðræðnanna. Þar að auki mun Kína auka flot gjaldmiðils síns, Yuan-sins, og draga úr handstýrðri veikingu hans sem gerð hefur verið til að auka samkeppnishæfni kínverska hagkerfisins.

Á þriðjudag varð ljóst að þreifingar höfðu átt sér stað í þeim efnum þegar Bandaríkin hættu að skilgreina Kína sem land þar sem gjaldmiðlinum er handstýrt (e. currency manipulator) en sú skilgreining hefur verið til staðar frá því í ágúst síðastliðnum þegar spenna á milli ríkjanna var í hámarki. Þá inniheldur samkomulagið ákvæði um að skerpt verði á hugverkarétti í Kína gagnvart bandarískum fyrirtækjum auk þess sem frjálsræði verði aukið í kínverska bankakerfinu.

Á móti munu Bandaríkin lækka tolla úr 15% í 7,5% á kínverskum vörum að andvirði 120 milljarða dollara auk þess sem stjórnvöld skuldbinda sig til að setja áætlanir um frekari tolla gagnvart Kína á ís.

Trump hafi valið auðveldu leiðina

Þrátt fyrir að vopnahlé hafi náðst milli ríkjanna er hins vegar ljóst að samkomulagið mun ólíklega binda enda á viðskiptastríð ríkjanna sem hefur óneitanlega minnkað traust milli ríkjanna og haft töluverð áhrif á fjölmörg fyrirtæki beggja vegna Kyrrahafsins. Felst gagnrýnin helst í því að  stærstur hluti af tollum á kínverskar vörur að andvirði um 360 milljarða dolla verður áfram til staðar á sama tíma og kínversk stjórnvöld þykja leggja lítið til málana hvað varðar niðurgreiðslur á starfsemi fyrirtækja og aðgerðir til að draga úr netþjófnaði (e. cybertheft).

Þá þykir einnig ólíklegt að samkomulagið muni draga úr dýpri ágreiningi ríkjanna á sviði varnarmála, uppbyggingu tækni á borð við 5G kerfa og á sviði gervigreindar.

Í frétt Financial Times um málið er haft eftir Ali Wyne, stjórnmálaskýranda hjá stjórnmálahugveitunni Rand Corporation, að þrátt fyrir vopnahléið séu jákvæðar fréttir sé ekki hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að löndin horfa á hvort annað sem andstæðing í æ ríkari mæli. „Stjórnvöld í Washington líta á upprisu kínverska hagkerfisins sem ógn við þjóðaröryggi við Bandaríkin en einnig við bandamenn sína. Á sama tíma líta stjórnvöld í Beijing svo á að aukin nýsköpun heima fyrir og aukinn útflutningur á óhefðbundna markaði sé landinu nauðsynleg.“

Óhætt er að segja að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafi orðið fyrir mikilli gagnrýni vegna viðskiptastríðsins, þá sérstaklega vegna áhrifa þess á landbúnað og framleiðslu. Að mati Charles Schumer, öldungadeildarþingmanns Demókrata, er Trump einfaldlega að velja auðveldu leiðina með samkomulaginu. „Hann er að samþykkja veikan og tímabundinn samning sem mun kosta bandarísk fyrirtæki, bændur og almenning mikið svo árum skipti.“ Aftur á móti hefur Trump talað um samninginn sem pólitískan sigur en hann hefur lofað að taka fast á málefnum Kína í forsetatíð sinni. Í herbúðum Trumps ríkir sátt um að taka þurfi á málefnum Kína en samkvæmt frétt Wall Street Journal er hins vegar ágreiningur milli mismunandi ráðuneyta og stofnana hvaða leið skuli farin að því.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .