Vöruviðskiptin við útlönd voru óhagstæð um 14,6 milljarða króna í júnímánuði, sem er eilítið minna en ári fyrr þegar þau voru óhagstæð um 14,7 milljarða króna. Er miðað við gengi hvors árs í tölum Hagstofunnar , sem nú eru uppfærðar vegna nýrra upplýsinga um innflutning á skipum. Voru fluttar út vörur fyrir 45,2 milljarðar króna og inn fyri 59,8 milljarða króna.

Á fyrri helmingi þessa árs voru fluttar út vörur fyrir 244,4 milljarða króna en inn fyrir 330,4 milljarða króna, en í fyrri tölunum nam innflutningurinn 325,5 milljörðum króna. Var því hallinn á vöruviðskiptum við útlönd fyrstu sex mánuði ársins 85,9 milljörðum króna, en árið áður voru vöruviðskiptin óhagstæð um 64,2 milljarða á gengi hvors árs. Jókst hallinn því um 21,7 milljarða milli ára.

Verðmætið dregst saman á milli ára

Verðmæti vöruútflutningsins var 30,5 milljörðum króna lægri í ár en árið áður, eða sem nemur 11,1% á gengi hvors árs. 55,2% alls útflutnings voru iðnaðarvörur, en verðmæti þeirra voru 3,1% lægri en á sama tíma árið áður. Dróst saman útflutningur á lyfjum og lækningatækjum en útflutningur á áli jókst.

Sjávarútvegur stóð fyrir 38,0% alls vöruútflutnings en verðmæti þess var 21,9% lægra en á sama tíma árið áður. Mesti samdrátturinn var í útflutningi á ferskum fiski og frystum flökum.

Verðmæti vöruinnflutningsins var 8,7 milljörðum króna lægra fyrstu sex mánuði þessa árs heldur en á sama tíma fyrir ári. Dróst aðallega saman innflutningur á flugvélum og neysluvörum en innflutningur á skipum, eldsneyti, fólksbílum og hrá- og rekstrarvörum jókst.