Bandaríski verslunarrisinn Walmart hefur hafið prufanir á heimsendingum til viðskiptavina með flygildum (e. drone), sem geta borið 3 kílógramma pakka og flogið 10 kílómetra samanlagt (með heimferðinni), á allt að 50 kílómetra hraða á klukkustund.

Í stað þess að lenda með vörurnar láta flygildin þær siga á jörðu niður úr um 24 metra hæð. Tækin sjálf eru rekin af ísraelska sprotafyrirtækinu Flytrex, sem fékk á síðasta ári leyfi frá flugmálayfirvöldum til að prufa tæknina í Norður-Karólínufylki, en prófanirnar standa nú yfir þar, í bænum Fayetteville.

Verslunarrisinn hefur lagt mikið upp úr flygildatækninni, og hóf prufanir innan fyrirtækisins fyrir 5 árum síðan. Prufanir á sendingum til viðskiptavina marka þó mikil tímamót samkvæmt umfjöllun The Verge um málið , en öryggis- og kostnaðarsjónarmið hafa lengi staðið í vegi fyrir framþróun og almennari notkun tækninnar í þessum tilgangi.