Walter Mondale, varaforseti Bandaríkjanna frá 1977 til 1981 í ríkisstjórn Jimmy Carters og forsetaframbjóðandi 1984 er látinn 93 ára að aldri af náttúrulegum orsökum.

Mondale er sagður hafa aukið mikilvægi varaforsetaembættisins með því að taka virkan þátt í mótun og framkvæmd stefnu stjórnarinnar og forsetans, ólíkt fyrirrennurum sínum. Haft var eftir honum í heimildarmynd um æviskeið hans árið 2008 að hann hafi verið fyrsti varaforsetinn til að vinna með forsetanum í Hvíta húsinu daglega, en hann hafði gert virka þátttöku eitt af skilyrðunum fyrir því að þiggja sætið á kjörseðli Carter.

Ronald Reagan sigraði Carter í kosningunum 1980 og Mondale sat því aðeins eitt kjörtímabil í embætti varaforseta. Fjórum árum seinna fór Mondale sjálfur gegn Reagan og hlaut eitt versta afhroð í sögu forsetakosninga landsins, 525 kjörmenn gegn 13, en fyrir utan höfuðborgina sigraði hann aðeins í heimafylki sínu, Minnesota, og það aðeins með 0,18% mun.

Mondale hlaut þó 37,6 milljón atkvæði gegn 54,4 milljónum, og var fyrsti frambjóðandi stórs stjórnmálaflokks með raunhæfan möguleika á sigri til að velja sér konu, þingkonuna Geraldine Ferraro frá New York-fylki, sem varaforsetaefni.

Carter, sem er enn á lífi 96 ára að aldri, fór fögrum orðum um Mondale og sagði hann meðal annars hafa verið besta varaforseta í sögu Bandaríkjanna.

Umfjöllun Wall Street Journal .