Útlit er fyrir að sjóðstreymi og afkoma fasteignafélagsins WeWork verði jákvæð talsvert fyrr en á hafði horfst, vegna aukinnar eftirspurnar eftir þjónustu fyrirtækisins sökum heimsfaraldursins. Financial Times greinir frá .

Mörg fyrirtæki hafa nýtt skrifstofuaðstöðuna sem WeWork býður upp á til að auka sveigjanleika starfsmanna eftir að heimsfaraldurinn hófst, og dreifa vinnuaflinu á fleiri staði. Síðastliðinn mánuð hafa stórfyrirtæki á borð við Microsoft, Citigroup og Mastercard gert samninga við félagið.

Sjóðstreymi næsta árs verður jákvætt ef fram fer sem horfir, og Marcelo Claure, starfandi framkvæmdastjóri félagsins, lagði upp með það í febrúar að það yrði rekið með hagnaði í lok sama árs.

Í því skyni hefur verið ráðist í umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir, um 8 af 14 þúsund starfsmönnum félagsins hefur verið sagt upp, eignir seldar og endursamið um leigusamninga.

Félagið hefur sem kunnugt er séð fífil sinn fegurri. Í upphafi síðasta árs var það metið á 47 milljarða dala og stefnan sett á frumútboð og skráningu á markað.

Hneykslismál tengd stofnandanum , Adam Neumann, og rannsóknir yfirvalda á félaginu í kjölfarið, urðu síðan til þess að hætt var við skráninguna, og í mars síðastliðnum hafði verðmatið lækkað í tæpa 3 milljarða dala.