Ráðstefnan What Works mun fara fram í þriðja skipti á Íslandi 1-3. apríl 2019 og verður í þetta sinn haldin í samvinnu við og með stuðningi Alþjóðabankans. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Cognitio.

Ráðstefnan er á vegum Social Progress Imperative stofnunarinnar og Cognitio (fulltrúa SPI hér á landi). Social Progress Imperative hefur aðsetur í Washington og London. Stofnunin hefur frá árinu 2013 birt svokallaða vísitölu félagslegra framfara (VFF – Social Progress Index) sem mælir lífsgæði og styrk samfélagslegra innviða þjóðlanda. Ísland deildi ásamt Noregi 3. til 4. sæti listans fyrir 2017 en úttekt stofnunarinnar náði til 128 landa. Í þetta sinn verður kastljósinu beint að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og hvernig hægt er að nýta mælikvarða félagslegra framfara til að ná þeim áfanga.

Hugmyndafræðin að baki VFF vísitölunni er að setja á oddinn það sem skiptir tilveru fólks mestu máli, þar á meðal eru aðgangur að heilsugæslu, menntun, hagkvæmu húsnæði og staða jafnréttismála og trúfrels. Á What Works er skoðað hvaða úrræði hafa gefist löndum best við að tryggja íbúum sínum velferð og skapa þeim tækifæri til að bæta líf sitt en vísitalan er einnig öflugt tæki til að fylgjast með framgangi áætlana um að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Ráðstefnan er hugsuð sem ákveðið mótvægi við hina árlegu Davos ráðstefnu þar sem athyglin er fyrst og fremst á hagstærðir og efnahagsskipan þjóða.

Einsog og áður verður Harpa vettvangur What Works ráðstefnunnar og von er á áhrifaaðilum og öflugum fyrirlesurum víða að. Meðal þátttakenda á fyrri ráðstefnum voru fulltrúar frá Facebook, MIT,  London School of Economics, Harvard, Deloitte og The Economist. Gert er ráð fyrir 200 til 250 þátttakendum á ráðstefnuna, sem verður að þessu sinni aðeins opin boðsgestum.Frekari upplýsinga er hægt að fá á www.whatworksinspi.com

Auk Alþjóðabankans styðja við ráðstefnuna Arionbanki, forsætisráðuneytið og Deloitte á Ísland.