Wow air hefur áætlunarflug til Dallas í Bandaríkjunum 23. maí næstkomandi. Flogið verður á Dallas/Fort Worth flugvöll þrisvar sinnum í viku, á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Í kjölfar mikillar velgengi vestanhafs bætum við Dallas við ört stækkandi leiðarkerfi okkar. Það er frábært að geta boðið enn fleirum upp á þann valkost að fljúga ódýrt yfir hafið og ég veit að Dallas er staður sem mun falla vel í kramið hjá Íslendingum enda var Ewing fjölskyldan tíður gestur á heimilum margra hér á árum áður,“ segir Skúli Mogensen stofnandi og forstjóri WOW air.

Dallas tilheyrir Texas ríki og er þriðja stærsta borg ríkisins á eftir Houston og San Antonio.

„Dallas er fyrir margra hluta sakir merkilegur staður að heimsækja. Við Dealey Plaza er safn til heiðurs John F. Kennedy, The Sixth Floor Museum, en safnið er staðsett á efstu tveimur hæðum þar sem Lee Harvey Oswald á að hafa hleypt af skotum og ráðið forsetann af dögum. Þá er Dallas líka mikil íþrótta- og menningarborg. Stórliðin Dallas Cowboys, Dallas Mavericks, Texas Rangers og Dallas Stars eiga þar öll bækistöðvar. Að lokum má enginn láta það framhjá sér fara að heimsækja Southfork býlið þar sem Ewing fjölskyldan úr sjónvarpsþáttunum Dallas hafði aðsetur,“ er tekið fram í fréttatilkynningunni.  Flogið verður í Airbus A330 vél og er brottför frá Keflavík kl 21:30.