Viðræður milli Wow air og Indigo Partners halda áfram til 29. mars nk. skv. tilkynningu sem Wow sendi frá sér seint í gærkvöldi. Heimildir Morgunblaðsins herma að yfirstjórn Wow hafi einnig óskað eftir því að við skuldhafa að þeir veiti félaginu sömuleiðis frest út marsmánuð og viðhaldi þeim breytingum sem fallist hafi verið á að gerðar yrðu á skuldabréfum við aðkomu Indigo Partners að félaginu.

Heimildir Morgunblaðsins segja að viðræðurnar hafi strandað á ágreiningi um hver endaleg eignarhlutdeild Skúla Mogensen, forstjóra Wow, verði að samningunum loknum. Þá vinni samningsaðilar einnig að framtíðarskipulagi Wow og áherslum í rekstri.

Indigo Partners hefur tilkynnt að félagið sé reiðubúið að lána Wow allt að níu milljörðum króna með skuldabréfi til tíu ára með breytirétt í hlutafé. Hins vegar getur Indigo Partners ekki farið með meirihluta í Wow, skv. reglum Evrópska efnahagssvæðisins, þar sem Indigo sé bandarískt félag.

Morgunblaðið greinir einnig frá því að Wow hafi ekki greidd starfsmönnum laun í gær en venja félagsins hefur verið afgreiða launagreiðslur fyrir 1. hvers mánaðar. Blaðið hefur undir höndum orðsendingu frá mannauðstjórn félagsins þar sem beðist er velvirðingar á að ekki hafi tekist að klára launavinnslu í gær og að þau verði því greidd í dag.