Samningaviðræðum Wow air og Indigo Partners hefur verið slitið, kemur þetta fram á heimasíðu flugfélagsins . Tekið er fram að Indigo Partners hafi slitið viðræðunum. Í ljósi þessara tíðinda hefur stjórn Icelandair Group samþykkt að hefja á ný viðræður við Wow um aðkomu að rekstri félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair Group til Kauphallar Íslands, sem birt var á sama tíma og fréttatilkynningin á vefsíðu Wow.

Í tilkynningu Icelandair Group segir jafnframt að viðræðurnar muni „byggja á sjónarmiði samkeppnisréttar um fyrirtæki á fallandi fæti." Ennfremur kemur fram að viðræðurnar fari fram í samráði við stjórnvöld. Stefnt er að því að niðurstöður viðræðna liggi fyrir strax á mánudaginn, 25. mars.

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Þriðja tilkynningin vegna þessa máls birtist svo á vef Stjórnarráðsins í kvöld.

„Stjórnvöld hafa síðasta árið fylgst með erfiðleikum í alþjóðlegum flugrekstri og samkeppnisstöðu íslenskra flugfélaga í því ljósi. Eigendur Wow air hafa um nokkurra mánaða skeið leitað leiða til að tryggja rekstur félagsins og hafa átt viðræður við fjárfesta, flugrekendur og aðra haghafa. Hingað til hafa þær viðræður ekki skilað þeim árangri sem eigandi félagsins stefndi að.

Ríkisstjórnin mun áfram fylgjast grannt með framvindunni og bindur vonir við að viðræður félaganna muni skila farsælli niðurstöðu," segir í tilkynningu ríkisstjórnarinnar.

Skuldabréfaeigendur?

Í tilkynningum félaganna er ekkert fjallað um skuldabréfaeigendur Wow , sem lánuðu félaginu nærri 8 milljarða króna í september. Eins og kom fram í Viðskiptablaðinu í dag þá áttu þeir að svara því í síðasta lagi um helgina hvort þér féllust á skilmálabreytingar skuldabréfanna. Í breytingunum felst meðal annars að 50% lánsins verði afskrifað, vextir lækkaðir úr 9% í 7% og 150 milljón króna vaxtagreiðsla, sem greiða átti á sunnudaginn, falli niður. Tengdust þessar skilmálabreytingar viðræðum Wow og Indigo Partners en ekki er vitað hvort einhver breyting verður á þeim nú í tengslum við þær vendingar sem urðu í kvöld.

Viðræðurnar komnar í hring

Er þetta í annað skiptið sem forsvarsmenn Wow og Icelandair hefja samningaviðræður því þann 5. nóvember síðastliðinn var tilkynnt að viðræður félaganna væru hafnar. Að morgni 29. nóvember tilkynnti Icelandair Group hins vegar að fallið hafi verið frá fyrirhuguðum kaupum félagsins á Wow . Að kvöldi þennan sama dag, 29. nóvember, var greint frá því að Wow air og Indigo Partners hefur undirritað viljayfirlýsingu um mögulega fjárfestingu Indigo í Wow . Þegar greint var frá viljayfirlýsingunni milli Wow air og Indigo voru viðræður aðilanna komnar töluvert skemur á veg en þegar tilkynnt var um kaup Icelandair Group á Wow air , þar sem kaupsamningur með fyrirvörum var til staðar.

Viðræður Wow og Indigo Partners drógust mjög á langinn og nú er niðurstaðan sem sagt sú að þeim hefur verið slitið og Wow og Icelandair taka upp þráðinn frá því í nóvember. Viðræðurnar nú eru hins vegar augljóslega á öðrum forsendum því líkt kemur fram í tilkynningu Icelandair Group í kvöld þá fara þær fram í samráði við stjórnvöld og byggja á sjónarmiði samkeppnisréttar um fyrirtæki á fallandi fæti.

„Fyrirtæki á fallandi fæti"

Þegar fyrri viðræður Wow og Icelandair hófust í byrjun nóvember síðastliðnum tjáði Eggert B. Ólafsson, sérfræðingur í samkeppnisrétti hjá Lögfræðisstofu Reykjavíkur, sig um málið í frétt í Viðskiptablaðinu. Vegna markaðshlutdeildar félaganna á flugi til og frá Keflavíkurflugvelli, sem þá var um 80%, taldi Eggert ólíklegt að samruni félaganna yrði leyfður nema með mjög ströngum skilyrðum.

„Á sama tíma er möguleikinn til staðar að samruninn verði samþykktur þar sem WOW air væri hvort sem er að hverfa af markaðnum. Þessi rök sem varða skilyrði um að félag sé á fallandi fæti snúa að því að þrjú skilyrði séu uppfyllt. Í fyrsta lagi er skilyrði um það að félagið sem um ræðir hverfi nema eitthvert annað félag taki yfir. Annað skilyrði er þá að ekki sé önnur yfirtaka möguleg eða sala á eignum sem myndi leiða til minni samþjöppunar á markaði en yfirtaka af hálfu Icelandair myndi leiða til og að ekki sé um annan kost en að Icelandair taki félagið yfir.

Mér finnst líklegast að málið muni þróast þannig í meðferð Samkeppniseftirlitsins að það geri ekki kröfu til þess að annað félag geti tekið WOW yfir í heild heldur að þessu verði stillt þannig upp að einhver annar aðili en Icelandair Group geti aukið við aðstöðu sína á Keflavíkurflugvelli til þess að geta keppt við félagið á þessum helstu flugleiðum sem Icelandair myndi annars vera með um 80% hlutdeild á. Þessu til viðbótar þarf að taka afstöðu til margra hluta eins og hvort Heathrow, Gatwick og Stansted teljist sami markaðurinn eða hvort flug kl. 3 um nótt eða kl. 10 um morgun teljist sama afurð sem verið er að selja svo dæmi sé tekið,“ sagði Eggert í viðtali í Viðskiptablaðinu 8. nóvember.

Fáein tilvik

Í grein sem Heimir Örn Herbertsson, lögmaður og sérfræðingur við lagadeild Háskólans í Reykjavík, birti í Morgunblaðinu í lok nóvember kemur fram að Samkeppniseftirlitið hafi í fáeinum tilvikum á undanförnum árum fengist við samruna, þar sem reyndi á sjónarmið um „félag á fallandi fæti."

„Þannig heimilaði eftirlitið t.d. án skilyrða yfirtöku Kaupþings banka á Spron í september 2008 þótt sá samruni styrkti að mati eftirlitsins markaðsráðandi stöðu og skapaði samkeppnishindranir. Byggði sú niðurstaða á því að Spron væri fyrirtæki á fallanda fæti. Hins vegar hafnaði áfrýjunarnefnd samkeppnismála árið 2011 yfirtöku Stjörnugríss á gjaldþrota svínabúum þótt Samkeppniseftirlitið hefði áður staðfest að um fyrirtæki á fallanda fæti hefði verið að ræða. Beitti áfrýjunarnefndin þar mjög ströngu mati varðandi þau skilyrði sem uppfylla þarf," segir meðal annars í grein Herberts.