Wow air hefur ekki greitt mótframlag í lífeyris- eða séreignarsparnað síðustu þrjá mánuði að því er Vísir greinir frá.

Starfsmenn fyrirtækisins hafi ekki verið látnir vita fyrr en í dag. Vísir hefur eftir Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa Wow air, að vegna skammtíma lausafjárþrenginga flugfélagsins hafi það neyðst til þess að fresta mótframlagi í lífeyris- og séreignarsparnað síðustu þrjá mánuði. Þó hafi hlutur starfsmanna verið greiddur að fullu. Wow ætli að ganga frá greiðslum í þessum mánuði.

Þá hefur Vísir eftir Magnúsi M. Norðdahl, deildarstjóra lögfræðideildar ASÍ að um vanskil sé að ræða hjá flugfélaginu. „Ef þeir hefðu ekki skilað því sem þeir drógu af starfsmönnum, hvort sem það er í séreign eða sameign, þá hefði það verið fjárdráttur,“ segir Magnús við Vísi.

Wow og Indigo Partners óskuðu í síðustu viku eftir fresti út 29. mars til að ganga frá fjárfestingu Indigo Partners. Áður en til þess kom könnuðu forsvarsmenn Wow hvort Icelandair hefði áhuga á að taka upp þráðinn á ný um fjárfestingu Icelandair í Wow.