Rannsóknarsetrið CAPA, sem sérhæfir sig í flugiðnaðinum, veitti í gær Wow air verðlaun sem lággjaldaflugfélag ársins. Stjórnarformaður samtakanna sagði það merki um velgengni flugfélagsins að Icelandair hygðist kaupa það.

Í frétt um málið er félagið sagt hafa verið valið fyrir að vera brautryðjandi á sviði langra tengifluga á lágu verði, þar sem millilending á Íslandi hafi verið notuð til að bjóða ódýr flug yfir Atlantshafið. Þrátt fyrir að félagið hafi aðeins verið á þeim markaði í 3 og hálft ár sé það nú annað stærsta flugfélagið þar, með 1,7% sætahlutdeild.

Rakið er að frá því að Wow hóf starfsemi árið 2012 hafi sætisfjöldi þess vaxið að meðaltali um 28% á ári. Floti félagsins telji 17 þotur og 3 breiðþotur, og fljúgi til 10 áfangastaða í Evrópu og 10 í Norður-Ameríku, auk þess að hefja flug til Delhi á Indlandi í byrjun desember, sem verði fyrsti áfangastaður félagsins í Asíu.

Þá er sagt frá fyrirhugaðri yfirtöku Icelandair á Wow air , og hún sögð birtingarmynd velgengni Wow. „Það er merki um velgengni Wow air að eina svar helsta keppinautar þess sé að kaupa það,“ er haft eftir Peter Harbison, stjórnarformanni CAPA.

Eins og sagt var frá í kjölfar frétta um yfirtökuna átti Skúli Mogensen, forstjóri Wow air, frumkvæðið að viðræðunum. Í gær, sama dag og verðlaunin voru veitt, sendi Wow air frá sér tvær yfirlýsingar. Önnur var um að flugvélum verði fækkað um fjórar til að auka hagkvæmni. Hinsvegar sendi Skúli kaupendum í skuldabréfaútboði félagsins fyrr í haust póst þar sem hann upplýsti að hann hefði sjálfur keypt bréf fyrir 5,5 milljónir evra, tæpa 780 milljónir króna, og að langtímafjármögnun félagsins væri enn ótrygg vegna versnandi rekstraraðstæðna.