Frumkvöðlarnir Ari Steinarsson og Ragnar Árnason stofnuðu, ásamt fleirum, í árslok 2019 markaðstorg fyrir rafræn gjafabréf frá fjölda fyrirtækja í gegnum app sem nefnist YAY. Það hefur verið nóg að gera hjá YAY frá stofnun og fyrirtækið selur nú gjafabréf frá yfir 140 fyrirtækjum. YAY hefur meðal annars séð um Ferðagjöfina fyrir íslenska ríkið sem margir Íslendingar hafa nýtt sér á ferðalögum innanlands frá því síðastliðið sumar. YAY hefur unnið náið með fjölda fyrirtækja í sinni þróun og þar á meðal er SalesCloud sem er ört vaxandi fyrirtæki sem býður upp á afgreiðslukerfi fyrir veitingahús.

„Nú getur fólk pantað mat á veitingastöðum í gegnum svokallað eTag frá SalesCloud og greitt með YAY appinu. Þetta er allt snertilaust í gegnum þessi kerfi og í rauninni hvar sem viðskiptavinur er staddur innan veitingastaðarins. Með þessari tækni má eiginlega segja, að það að bíða í röð á veitingahúsi eða eftir þjóni er liðin tíð. Hressingin kemur til þín innan staðarins," segir Ragnar Árnason, sölu- og markaðsstjóri YAY.

Ragnar segir að gjafabréf í veitingahús séu afar vinsæl hjá YAY. „Þetta er mjög öflugt hjá SalesCloud að koma fram með þessa eTag lausn. Nú er ennþá auðveldara að nota YAY gjafabréfin og t.d. Ferðagjöfina á þeim veitingastöðum sem nota eTag frá SalesCloud."

Helgi Jónsson, framkvæmdastjóri SalesCloud, útskýrir að lausnin virki þannig að gestir skanni eTag á viðkomandi borði eða stað innan veitingastaðarins, panti og fái matinn á borðið og um leið valið að greiða með YAY gjafabréfi - allt í símanum. Aldrei þarf að bíða í röð, setja síma yfir posa eða sýna starfsmanni kóða, heldur gerir gesturinn allt sjálfur og þjónninn mætir með hressinguna beint til viðskiptavinarins, hvar sem hann er staddur á veitingastaðnum.

Valið fyrst íslenskra fyrirtækja

Mastercard valdi nýverið YAY, fyrst íslenskra fyrirtækja, til að taka þátt í sérstöku prógrammi sem heitir Mastercard Lighthouse.
„Það er gríðarleg þróun í greiðsluheiminum í dag og margar hurðir að opnast. Asía er á miklu flugi í QR greiðslum og svo PSD2 og Open Banking hér í Evrópu. Við erum því afar stolt og mikil viðurkenning í því fólgin að Mastercard hafi valið YAY, fyrst íslenskra fyrirtækja, til taka þátt í sérstöku prógrammi sem heitir Mastercard Lighthouse. Í gegnum þetta prógram höfum við fundað með öllum helstu sérfræðingum innan Mastercard og alla helstu banka Norður Evrópu sem standa einna fremst í þessum greiðsluheimi. Það er svo sannarlega spennandi tímar framundan," segir Ari Steinarsson, framkvæmdastjóri YAY.

Hann segir að mikill vöxur hafi verið hjá YAY og ekki minnkað á tímum COVID-19. „Við höfum aukið við okkur bæði viðskiptavinum og fyrirtækjum. YAY gjafabréfin hafa mælst vel fyrir enda mjög þægileg lausn að hafa þau í appinu og engin hætta á að týna gjafabréfinu. YAY Appið er fyrst og fremst hugsað fyrir notendur, þ.e. eigendur gjafabréfa. Notendur YAY geta keypt, sent með myndbandskveðju eða selt gjafabréfið til annarra notenda YAY, allt innan appsins, þannig að gjafabréf enda alltaf í réttum höndum og hvetur til viðskipta. YAY gerir þér kleift að velja gjafakort frá fjölda verslana, veitingastaða og annarra þjónustufyrirtækja víða um land. Eða það sem betra er, nálægt þeim sem þú vilt gleðja. Við erum einnig með endursölumarkað þannig að ef fólk getur ekki nýtt gjafabréfin sem það fékk þá getur það einfaldlega sett gjafabréfi á endursölumarkaðinn og nýtt söluandvirðið til að kaupa sér annað gjafabréf sem hentar betur," segir Ari.

Mannauðsstjórar og erlendir risar hrifnir af YAY

Ragnar segir að stjórnendur fyrirtækja hafi sýnt YAY mikinn áhuga og stöðugt fleiri fyrirtæki nýti sér fyrirtækjalausn YAY til að umbuna starfsmönnum og viðskiptavinum með stafrænum hætti á nokkrum sekúndum og senda líflegar vídeó-kveðjur með.

„Það er ljóst að mannauðsstjórar hér á landi sem og aðrir stjórnendur fyrirtækja eru sannarlega móttækilegir og óhræddir við að nýta sér nýjustu tækni. Mannauðssviðin eru að spara sér mikinn tíma og kostnað þegar kemur að því að dreifa glaðningum til starfsmanna og viðskiptavina með skilvirkari og umhverfisvænni hætti en áður. Erlend fyrirtæki hafa einnig sýnt lausnum okkar áhuga og vilja kynna sér það sem við höfum verið að þróa. Við erum að m.a. að vinna að lausn með Facebook Workplace og svo eru við á sama tíma að skoða ýmsa möguleika með Mastercard. Það er því sannarlega margt spennandi í gangi og tækifæri sem nýtist okkur í frekari vexti."