Janet Yellen, seðlabankastjóri Bandaríkjanna sagði í ræðu sem hún hélt fyrir Bandaríkjaþing í dag að ef óróleiki verður áfram á heimsmörkuðum gæti hann haft áhrif á hagvöxt í Bandaríkjunum. Að mati sérfræðinga hafa ummæli Yellen hafa dregið úr möguleikanum á því að stýrivextir verði hækkaðir í náinni framtíð.

Yellen benti á að aðstæður í Kína hefðu þróast á þann hátt að þær væru ekki að styðja við vöxt í Bandaríkjunum. Benti hún þar sérstaklega á verðlækkanir á eignamörkuðum, aukinn lánakostnað og styrkingu Bandaríkjadals, sem kæmi illa við útflutningsgreinar í Bandaríkjunum.

Yellen hélt sig þó við stefnu sína um rólega hækkun stýrivaxta og sagði að lækkandi atvinnuleysi og hækkandi laun myndu styðja við efnahaginn á sama tíma og erlendar örvunaraðgerðir, s.s. hjá evrópska seðlabankanum, myndu styðja við hagvöxt í Bandaríkjunum. Að mati Financial Times var ræðan hennar þó töluvert varkárari heldur en bjartsýnisræða hennar í desember sl. Þá tilkynnti Yellen um hækkun stýrivaxta og sagði að efnahagur landsins væri að sýna mikil batamerki.

Síðan hún hélt þá ræðu, í desember, þá hafa hlutabréfamarkaðir ókyrrst og lækkað töluvert og víða um heim hafa menn áhyggjur af getu seðlabanka til að halda uppi hagvexti.