Sem forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu hefur Inga Hlín Pálsdóttir tekið þátt í veigamiklu kynningarstarfi fyrir ferðamenn um Ísland. Tugir milljóna manna um allan heim hafa horft á herferðir á borð við „Iceland Academy“ og „Ask Guðmundur“ og eru líklegri til að heimsækja Ísland í kjölfarið.

„Iceland Academy“ herferðin ykkar er mjög áhugaverð og hefur vakið mikla athygli. Hver var hugmyndin á bak við hana?

„Sú herferð er eiginlega sú besta hingað til. Við höldum mánaðarlega fundi með samstarfsaðilum og förum yfir það sem við erum að gera í herferðunum og hvernig þeir geta tengt sig við þær og síð- an erum við með stefnumótunarfundi tvisvar sinnum á ári. Í október í fyrra hittumst við öll og vorum að velta fyrir okkur áherslunum fyrir þetta ár. Um sumarið hafði verið mikil umræða um hegðun ferðamanna á Íslandi og þá fórum við að velta því fyrir okkur hvort við gætum nýtt markaðssetninguna til að hafa áhrif á hegðun ferðamanna. Þá kom fram hugmyndin um þessa ábyrgu ferðahegðun sem snýr að því að fólk ferðist um landið á öruggan en jafnframt ánægjulegan hátt. Við unnum að því og fengum líka sérfræðinga á borð við Landsbjörgu til að aðstoða okkur og margir hafa verið mjög hrifnir af herferðinni. Við settum einmitt síðasta hluta hennar af stað nýlega, þar sem ferðamönnum er kennt hvernig á að taka örugga „selfie“, en við höfum einnig kennt þeim hvernig ferðamenn eiga að haga sér í heita pottinum, hvernig þeir eiga að klæða sig á réttan máta og fleira.“

Sjö milljónir manns horfðu á myndböndin í fyrra

Hefur herferðin gengið vel?

Það hafa verið birtar yfir 830 blaðagreinar sem fjalla eingöngu um þessa herferð og virði umfjöllunarinnar er yfir 2 milljarðar. „Ask Guðmundur“ herferðin hafði verið sú árangursríkasta hingað til og þá voru skrifaðar 630 blaðagreinar. Það er greinilega til staðar áhugi á ábyrgri ferðahegðun, við vorum svolítið hrædd við að tala um eitthvað sem er okkur hjartans mál en ferðamanninum gæti verið alveg sama um, en svo var greinilega ekki. Sjö milljónir manns horfðu á myndböndin í fyrra og það hafa fimm milljónir horft á myndbönd Iceland Academy það sem af er ári. Herferðirnar okkar hafa samtals náð til tugi milljóna manns, en svo er mikilvægt að mæla annars vegar árangur markaðsherferð- anna og hins vegar árangur ferðaþjónustunnar, hvernig gengur að minnka árstíðasveiflur og dreifa ferðamönnum um landið. Sem dæmi má nefna að við mælum virkni markaðsefnisins okkar og má sjá að ferðamenn sem sáu kynningarefni Iceland Academy eru 30% líklegri til þess að ferðast til Íslands.“

Myndirðu segja að Íslandsstofa gegni mikilvægu hlutverki í landkynningu?

„Þegar samstarfið um Inspired by Iceland varð til árið 2010 fóru fyrirtækin að vinna saman og við settum okkur skýran fókus á hvað við ætluðum að gera í markaðssetningunni. Það var talsverð breyting, því áður voru send mismunandi skilaboð til mismunandi markaða og það vantaði alla samþættingu. Í dag erum við að senda sömu skilaboðin og vinna af meiri krafti og þessi samstarfsvettvangur og samtal um markaðssetningu hefur gert það að verkum að aðilar eru að vinna mun skilvirkar saman.“

Viðtalið í heild má sjá í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn tölublöð.