Húsnæðislánafyrirtækið Better Mortgage, sem mun sameinast sérhæfðu yfirtökufélagi Björgólfs Thors Björgólfssonar, sagði upp meira en 900 manns, eða um 9% af starfsfólki sínu, á Zoom fundi á miðvikudaginn síðasta.

„Að þurfa að ráðast í uppsagnir er átakanlegt, sérstaklega á þessum tíma árs,“ sagði Kevin Ryan, fjármálastjóri Better, í tilkynningu. „Hins vegar mun stór efnahagsreikningur ásamt minna og einbeittara starfslið gera okkur kleift að sækja inn á húsnæðismarkaðinn.“

Sérhæfða yfirtökufélagið Aurora Acquisition, er leitt af Novator, fjárfestingafélagi Björgólfs Thors sem fer með 16% hlut í Better, að því er Viðskiptablaðið greindi frá. Björgólfur Thor er stjórnarformaður Aurora. Sigurgeir Jónsson, frændi Björgólfs, kom að stofnun Better og starfar þar sem yfirmaður fjármálamarkaða . Better er verðmetið á 6,9 milljarða Bandaríkjadala, eða um 900 milljarða króna.

Sjá einnig: Novator kaupir í Better fyrir 25 milljarða

Tilkynnt var í síðustu viku að Aurora og SoftBank muni veita Better 750 milljóna dala, eða um 98 milljarða króna, í fjármögnun þegar í stað til að styrkja efnahagsreikninginn og renna stoðum undir frekari vöxt. Fram kemur að með þessari fjármögnun þá mun Better hafa yfir einn milljarð dala í handbært fé. Jafnframt var tekið fram að unnið væri að því að ljúka Spac samrunanum tímanlega.

Sakaði starfsfólk um að þjófnað

Forstjóri Better, Vishal Garg, tilkynnti starfsfólki sínu um uppsagnirnar á Zoom fundi á miðvikudaginn. Upptaka af fundinum var í kjölfarið lekið á netið.

„Ef þú ert hluti af þessum fundi, þá ert þú hluti af óheppna hópnum sem verið er að segja upp,“ sagði Garg „Þetta er í annað skiptið á ferlinum sem ég geri þetta og ég vildi óska þess að ég þyrfti ekki að gera þetta. Í síðasta skipti fór ég að gráta.“
Garg sagði á fundinum að markaðurinn hafi breyst og að fyrirtækið þyrfti að grípa til aðgerða til að lifa af. Hann nefndi einnig frammistöður og framleiðni sem ástæður fyrir uppsögnunum.

Fortune greindi frá því að Garg hafi í kjölfar fundarins opinberlega sakað hundruð starfsfólks um að „stela“ frá samstarfsfólki og viðskiptavinum með því að vera óframleiðið og vinna aðeins tvær klukkustundir á dag.

Forstjórinn umdeildur

Forbes fjallaði ítarlega um Garg í lok síðasta árs og lýsti þar umdeildum stjórnarháttum forstjórans. Þar kom einnig fram að Garg standi frammi fyrir nokkrum málssóknum þar sem hann eða fyrirtæki í hans eigu eru sökuð um ósæmileg eða jafnvel sviksamlega hegðun hjá fyrri sprotafyrirtækjum hans og að draga að sér að fjárhæð „tugum milljóna dala“. Forbes birti eftirfarandi skilaboð Garg til starfsmanna sinna.

„Þið eruð ALLTOF FJANDANS HÆG. Þið eruð hópur af HEIMSKUM HÖFRUNGUM og ... HEIMSKIR HÖFRUNGAR festast í neti og verða étnir af hákörlum.  SVO HÆTTIÐI ÞVÍ. HÆTTIÐI ÞVÍ. HÆTTIÐI ÞVÍ Á STUNDINNI. ÞIÐ ERUÐ AÐ GERA MIG AÐ ATHLÆGI.“

Þá hafa starfskjör og fríðindi sem Garg veitti nánum samstarfsmanni sínum, sem síðar var vikið tímabundið frá störfum vegna eineltis, vakið athygli. Hún fékk kauprétti að andvirði allt að tugum milljóna dala og ólíkt öðru starfsfólki þá gat hún innleyst hagnaðinn samstundis, samkvæmt The Daily Beast .

Upptaka frá Zoom fundinum þar sem Vishal Garg, forstjóri Better, tilkynnir starfsfólki um uppsagnir.